Icesave Íslensk stjórnvöld hafa sent greinargerð sína til EFTA-dómstólsins.
Icesave Íslensk stjórnvöld hafa sent greinargerð sína til EFTA-dómstólsins. — Morgunblaðið/Golli
Hjörtur J. Guðmundsson hjorturj@mbl.is Stjórnvöld vísa kröfum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) alfarið á bug vegna Icesave-málsins og krefjast þess ennfremur að EFTA-dómstóllinn hafni kröfugerð stofnunarinnar.

Hjörtur J. Guðmundsson

hjorturj@mbl.is

Stjórnvöld vísa kröfum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) alfarið á bug vegna Icesave-málsins og krefjast þess ennfremur að EFTA-dómstóllinn hafni kröfugerð stofnunarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu utanríkisráðuneytisins en íslensk stjórnvöld sendu í gær greinargerð sína vegna málsins til dómstólsins þar sem fram koma viðbrögð stjórnvalda við stefnu ESA. Greinargerðin leggur um leið grunninn að málsvörn Íslands í málinu.

Málsvörnin byggist einkum á því að tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar hafi verið innleidd hér á landi með réttum hætti og fyrirkomulag íslenska innistæðutryggingasjóðsins hafi verið með þeim hætti sem til var ætlast og gerðist almennt í Evrópu. Þá segir að ekkert innistæðutryggingakerfi standist allsherjarhrun og að til þess sé heldur ekki ætlast. Við slíkar aðstæður þurfi að grípa til annarra ráðstafana sem gert hafi verið hér á landi með setningu neyðarlaganna í byrjun okróber 2008.

Hætta á greiðsluþroti ríkja

„Málsókn ESA byggist í raun á því að íslenska ríkið hefði þurft að leggja tryggingasjóðnum til peninga ef eignir hans dugðu ekki til. Enga slíka skyldu er að finna í tilskipuninni og ekkert ríki gerir ráð fyrir slíkum skuldbindingum. Ef þær skyldur væru til staðar hefur nú verið reiknað út að í bankahruni yrði kostnaður Evrópusambandsríkja að meðaltali 83% af landsframleiðslu þeirra,“ segir í tilkynningunni. Lögskýring ESA myndi þannig í alvarlegri kreppu leiða til hættu á greiðsluþroti ríkja og samfélaglegu uppnáms í kjölfarið.

Þá sé lögskýring ESA einnig í andstöðu við meginreglur á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) um bann við ríkisaðstoð. Sjálfkrafa ábyrgð ríkja á innstæðuskuldbindingum banka myndi hafa í för með sér röskun á samkeppnisstöðu. „Ríki hafa sótt um leyfi til ríkisaðstoðar við ýmsar aðgerðir í bankakreppunni. Enginn hefur byggt á því að ekki þurfi að gera það vegna þess að sjálfkrafa ábyrgð sé fyrir hendi. Það eitt sýnir skýrt að skyldan verður ekki ráðin af tilskipuninni.“

Ennfremur kemur fram að innistæðueigendur í Bretlandi og Hollandi hafi fengið greitt úr tryggingasjóðum viðkomandi ríkja. Þeir sjóðir muni síðan fá greiðslur úr búi Landsbanka Íslands og þar af leiðandi muni í reynd enginn skaðast.

Fallist dómstóllinn hins vegar á sjónarmið ESA um skilning á innistæðutilskipuninni er á því byggt að sérstakar og óviðráðanlegar aðstæður feli í sér að skylda ríkisins falli niður. Tryggingafjárhæðin nemi jafnvirði 650 milljarða íslenskra króna sem séu allar skatttekjur íslenska ríkisins í eitt og hálft ár. Útilokað hafi verið fyrir íslensk stjórnvöld að útvega þá fjármuni á einu ári í kjölfar hrunsins, en ESA segi meint brot íslenska ríkisins hafi verið fullframið í október árið 2009.

Mismunun misskilningur

Þá kemur ennfremur fram að málflutningur ESA varðandi meinta mismunun erlendra og innlendra innistæðueigenda sé byggður á misskilningi. Hvorki innistæðutryggingakerfið hér á landi né íslenska ríkið hafi greitt hérlendum innistæðueigendum. „Því hefur engin mismunun átt sér stað innan innstæðutryggingakerfisins eða með ráðstöfun ríkisfjár. Eignir Landsbankans greiða bæði kröfur innlendra og erlendra innistæðueigenda.“ Bent er á að algjörlega útilokað hafi verið að ráðast í samskonar aðgerðir gagnvart innistæðueigendum í Bretlandi og Hollandi eins og gert hafi verið hér á landi með neyðarlögunum. „Þarlend yfirvöld höfðu kyrrsett eignir útibúanna og greiðslukerfi á milli Íslands og umheimsins var hrunið. Gjaldeyrisforði Íslands hefði ekki dugað nema fyrir broti af umræddum innstæðum.“

Gert er ráð fyrir að ESA fái nú frest til að bregðast við greinargerð íslenskra stjórnvalda með því að leggja fram andsvör. Íslensk stjórnvöld fái síðan aftur tækifæri til að leggja fram gagnsvör. Jafnframt fái önnur EFTA-ríki og ríki Evrópusambandsins tækifæri til að taka þátt í málsmeðferðinni og sama eigi við um framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Gera megi ráð fyrir að munnlegur málflutningur fyrir EFTA-dómstólnum fari fram síðari hluta þessa árs.

Þá er þess getið að röksemdir íslenskra stjórnvalda hafa í meginatriðum komið fram í fyrri bréfaskiptum við ESA. Hins vegar hafi síðustu vikur verið unnið að því að skerpa enn frekar á vörnum Íslands og bæta við efnislegum rökum í ljósi stefnu ESA til EFTA-dómstólsins.