Baktjaldamakk getur ekki orðið grundvöllur orkunýtingar til langrar framtíðar

Í lok janúar sl. voru rúmlega 12 þúsund landsmenn atvinnulausir. Útlit í atvinnumálum er því miður ekki bjart og að óbreyttu má ætla að hægt muni ganga að ná tölum um atvinnuleysi niður á viðunandi stig.

Í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar um beint og óbeint framlag áliðnaðar til landsframleiðslu kemur fram að nálægt 5 þúsund manns starfi í áliðnaði og tengdum greinum. Þetta felur í sér að hefðu forsjálir og framtakssamir menn ekki stuðlað að uppbyggingu áliðnaðar hér á landi fyrir nokkrum áratugum og aðrir komið í kjölfarið og beitt sér fyrir áframhaldandi uppbyggingu hans væru nú allt að 17 þúsund atvinnulausir hér á landi.

Forsendur álbræðslunnar og annarrar stóriðju hér á landi eru sem kunnugt er virkjanir. Þess vegna eru þær virkjanir sem hér hafa verið byggðar forsenda fyrrnefndra tæplega 5 þúsund starfa, en sú einfalda staðreynd gleymist allt of oft í umræðunni um virkjanir.

Með sama hætti eru frekari virkjanir forsenda frekari atvinnusköpunar á þessu sviði og fyrir liggur að verði frekari virkjanir leyfðar munu skapast ný störf. Og þetta eru raunveruleg ný störf og við slíkar virkjanir verða til raunveruleg ný verðmæti, enda er eðlilegt að flokka orku- og áliðnað í sameiningu sem grunnatvinnuveg, líkt og rætt er um í skýrslu Hagfræðistofnunar.

Núverandi stjórnvöld hefðu getað gert ýmislegt þau rúmu þrjú ár sem þau hafa setið við völd til að byggja upp atvinnulífið og skapa ný störf, en sú vinna hefur þurft að víkja fyrir vafasömum gæluverkefnum af ýmsu tagi. Eitt af því augljósa sem hægt hefði verið að gera er að standa ekki í vegi fyrir frekari uppbyggingu raforkuvirkjana og orkufreks iðnaðar. Þess í stað hefur ríkisstjórnin hindrað slíka uppbyggingu, meðal annars með því að halda rammaáætlun í gíslingu.

Og nú þegar útlit er fyrir að ríkisstjórnarflokkarnir hafi loks ákveðið að losa um rammaáætlunina hafa þeir uppi áform um að ýta til hliðar hagkvæmum virkjanakostum sem hafa í för með sér ásættanleg umhverfisáhrif.

Þau pólitísku hrossakaup og baktjaldamakk sem leiddu til þessarar niðurstöðu munu óhjákvæmilega þýða að fjöldi starfa sem unnt hefði verið að skapa verður ekki til. Það er að segja ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar. Næsta ríkisstjórn mun hins vegar án efa telja sig alls óbundna af þeim skaðlegu skiptisamningum sem Samfylkingin og Vinstri grænir hafa gert um orkunýtingu landsins. Engin leið er að verja það að ákvörðun um orkunýtingarstefnu til langrar framtíðar verði tekin á bak við luktar dyr í bakherbergjum ríkisstjórnar sem skirrist ekki við að beita hvaða ráðum sem er til að hanga á völdunum. Þegar kjósendur losa sig við núverandi ríkisstjórn hlýtur að verða eitt fyrsta verk nýrrar stjórnar að hverfa frá þessari stefnu og leyfa uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra.