Tónlist Högni Egilsson er einn vinsælasti tónlistarmaður þjóðarinnar.
Tónlist Högni Egilsson er einn vinsælasti tónlistarmaður þjóðarinnar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónleikarnir voru vafningur af alls konar hugmyndum sem fléttuðust saman og bjuggu til sjón- og tónupplifun.

Viðtal

Vilhjálmur A. Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

Í vændum er plata frá þeim Högna Egilssyni í Hjaltalín og Stephan Stephensen sem einnig er þekktur sem President Bongo í GusGus. Að sögn Högna kviknaði hugmyndin síðasta sumar á tónleikum á listahátíð. „Tónleikarnir voru vafningur af alls konar hugmyndum sem fléttuðust saman og bjuggu til sjón- og tónupplifun. Úr því spratt upp fjöldi laga sem við erum að vinna með núna og bæta við,“ segir Högni og bætir því við að á plötunni sé unnið með karlakór og platan sé eins og stendur með kalda tóna og lýsi sér sem dimmt landslag en áferðin sé rúnnuð og mjúk. Þá er Högni einnig að vinna plötu með Hjaltalín og segist hann vona að plöturnar komi út á þessu ári. „Ég vona að þær komi út í ár en þetta kemur ekki til manns eftir pöntun og ég vinn lög ekki frá níu til fimm, þetta getur verið svolítið óútreiknanlegt. Tónlistin er sprottin af skynjuninni og hún er spegill á það sem þú ert að ganga í gegnum.“

Tónlist af huga og sál

Högni er einstaklega næmur á listina í umhverfi sínu og þarf að finna og skynja upplifunina sem hann semur um en er mjög skilningsríkur á mismunandi aðferðir listamanna í sinni nálgun á listina.

„Tónlist kemur ekki af tónum einum og sér. Hún er hvort tveggja í senn hlutlæg og huglæg og hvorugt getur án hins verið. Þetta er ákveðinn leikur eða dans þar sem þú greinir ákveðið efni, þú sérð það fyrir þér og blandar því saman, þ.e. ákveðinn handverknaður, en hin hreinræktaða list eða huglægi þátturinn verður til einhvers staðar annars staðar. Sá þáttur kemur annars staðar frá. Það er eitthvað sem liggur í loftinu og þú togar það til þín.

En til að sjá þennan hlut verður þú að hafa upplifað hann í einhverri mynd.“

Tónlist hefur á öllum tímum verið tæki til að tjá tilfinningar, hvort heldur til að berja kjark og þor í stríðshrjáðar þjóðir, lækna brostin hjörtu, minnast fallinna vina og ættingja, gleðjast í góðra vina hópi eða setja fram nýjar hugmyndir og viðmið. „Þú ert að reyna að spegla einhvern ófyrirséðan sannleik. Það sem frábær list gerir er að hún lyftir upp ákveðnum viðmiðum og það eru ákveðin hvörf sem verða til staðar og listaverkið byltir þinni vitund um hugmynd þína um einhvers konar merkingu og góð list býr til nýjan sannleik hjá fólki.“

Orðrómur um lífið og listin að gera mistök

Líkt og í listinni er Högni frjáls í anda. Hann lætur ekki hefðir eða siði segja sér hver hann er eða hvert hann ætlar að fara. Réttlætiskennd hans byggist á umburðarlyndi og víðsýnni heimsmynd manns sem grípur tækifærið þegar það gefst. „Fólk er oft upptekið af því að eitthvað stórkostlegt sé eftir að gerast seinna og nýtur ekki andartaksins. Það er mikill misskilningur að ef þú hagar þér á ákveðinn hátt eða eins og samfélagið ætlast til af þér, þá eigir þú eftir að uppskera einhverja hamingju seinna. Himnaríki er hér og nú, það er ekki einhvers staðar annars staðar.“ Högni segir sína nálgun á lífið engan leiðarvísi fyrir aðra heldur einungis hans hugmynd um lífið og tilveruna. „Það er fjöldinn allur af fólki upptekinn við að predika yfir öðrum hvernig eigi að haga sér í lífinu. Boð og bönn sem fjalla um persónuleg málefni, hvernig fólk á að klæða sig, hvaða kyn það á að elska o.s.frv. Síðan eru allt of margir í því að hnýta í alla og finna höggstað á fólki. Fólk á að mínu viti einfaldlega að elta drauma sína og gera nákvæmlega það sem það vill gera. Ef þig langar að ferðast, líttu upp, því heimurinn er fyrir fótum þér. Farðu og kynnstu fólki, skapaðu eitthvað og ekki hræðast það að gera mistök. Líf manns er samsafn af öllum þessum augnablikum. Börnum er kennt að mistök séu slæm en auðvitað eigum við öll að gera mistök og taka áhættuna og verða fyrir vonbrigðum því á þeim lærum við mest. Þetta allt saman er hreyfing, ákveðið ferðalag sem við förum í gegnum og ef þú ferð aldrei í þetta ferðalag, gerir ekkert, þá hverfa augnablikin.“