Heimild „Ljóst er að Kári hefur víða leitað fanga og hefur greinilega orðið verulega ágengt í því að grafa upp myndefni.“
Heimild „Ljóst er að Kári hefur víða leitað fanga og hefur greinilega orðið verulega ágengt í því að grafa upp myndefni.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjórn og handrit: Kári G. Schram. Klipping: Kári G. Schram, Haukur V. Pálsson, Skafti Guðmundsson. Kvikmyndataka: Kári G. Schram. Hljóðhönnun: Huldar Freyr Arnarsson. Tónlist: Jóhann Jóhannsson. Framleiðandi: Kári G. Schram. Meðframleiðandi: Íþróttabandalag Reykjavíkur. 70 mínútur. Ísland. 2012

Blikkið – Saga Melavallarins er stórmerkileg heimildamynd fyrir margra hluta sakir. Í þessari mynd hefur Kári G. Schram safnað saman ýmsum verðmætum sem tengjast íþrótta- og menningarlífi Íslendinga sem hætta er á að hefðu glatast. Eins og nafnið gefur til kynna fjallar myndin um Melavöllinn sáluga en Blikkið vísar til skemmtilegrar sögu frá knattspyrnuleikjum á blómaskeiði þessa merkilega malarvallar.

Ljóst er að Kári hefur víða leitað fanga og hefur greinilega orðið verulega ágengt í því að grafa upp myndefni. Það kemur manni nokkuð á óvart hversu mikið er til af boðlegum hreyfimyndum nokkuð langt aftur í tímann. Fyrir utan myndefnið þá eru garnirnar raktar úr fjölmörgum viðmælendum. Sumir hverjir eyddu drjúgan hluta ævinnar á vellinum eða hliðarlínunni.

Fyrir yngri kynslóðir er upplýsandi að sjá hversu mikið félagslegt og menningarlegt gildi Melavöllurinn hafði í höfuðstaðnum. Margur kann að halda að starfsemin þar hafi einskorðast við íþróttaiðkun en því fer fjarri eins og myndin sýnir glögglega. Þar fóru fram alls kyns viðburðir og mannfagnaðir af ýmsum toga.

Hvað íþróttirnar varðar þá voru fjölmargar greinar sem þar komu við sögu enda virðist vallarstjórinn, Baldur Jónsson, hafa haft ráð undir rifi hverju. Á veturna var til að mynda útbúið skautasvell á vellinum ef því var að skipta. Einnig kemst það vel til skila í myndinni hversu vel íþróttaviðburðir voru sóttir á Melavellinum, sérstaklega á þeim tíma þegar lítið var um afþreyingu í nútímaskilningi.

Undirritaður er ekki í nokkrum vafa um að eldri kynslóðir hafi mjög gaman af því að sjá myndina og geti yljað sér við minningar frá horfnum tímum. Völlurinn heyrir jú sögunni til. Ég get samt ímyndað mér að fólki geti þótt svolítið ruglingslegt á köflum þegar vaðið er úr einu tímabili í annað án þess að hnykkt sé á ártölum. Slíkt er kannski bara hluti af heimildarmyndaforminu þar sem ekki tíðkast alltaf að kaflaskipta umfjöllunarefninu um of.

Kristján Jónsson

Blikkið: saga Melavallarins er sýnd í Bíó Paradís. „Þetta er ekki bara saga vallarins heldur fólksins sem gaf honum líf, fólksins sem sigraði, grét, svitnaði og blæddi á honum. Saga þeirra og þess fólks sem hugsaði um völlinn er engu síðri og henni geri ég líka góð skil í myndinni,“ sagði leikstjórinn um mynd sína í samtali við Morgunblaðið fyrir stuttu.