Jónas Helgfell Magnússon, fyrrum bóndi Uppsölum í Eiðaþinghá, fæddist á Uppsölum 12. desember 1928. Hann lést á Landspítalanum 28. febrúar 2012.

Foreldrar Jónasar voru Ásthildur Jónasdóttir, f. 10.11. 1888, d. 7.12. 1968, frá Helgafelli í Helgafellssveit á Snæfellsnesi og Magnús Jóhannsson, f. 6.12. 1887, d. 21.1. 1982, frá Innri-Drápuhlíð í Helgafellssveit á Snæfellsnesi.

Þau fluttust búferlum vestan af Snæfellsnesi árið 1923 og hófu búskap á Uppsölum 1924.

Jónas var næstyngstur þrettán systkina en hin systkinin eru: Þormóður Helgfell, f. 1917, lést í bernsku, Jóhann, f. 1918, Ingveldur f. 1919, d. 2011, Þormóður, f. 1920, lést í bernsku, Matthildur, f. 1922, Ásmundur, f. 1924, Þorsteinn, f. 1925, d. 2000, Þórleif Steinunn, f. 1926, d. 1983, Jóhanna, f. 1927, Ástríður og Ingibjörg, f. 1929, létust í bernsku, og Ástráður Helgfell, f. 1930, d. 2007

Jónas kvæntist 30. desember 1955 Ástu Þórleifu Jónsdóttur frá Eiðum, f. 17.1. 1935. Foreldrar Ástu voru Jón Sigfússon, f. 1910, d. 1966, og Sigurlaug Jónsdóttir, f. 1904, d. 1979. Ásta og Jónas hófu búskap á Uppsölum 1955 og bjuggu þar til ársins 1994 er þau brugðu búi og fluttu í Egilsstaði.

Börn þeirra eru:1) Sigurlaug Jóna, f. 1955, gift Jóni Metúsalem Einarssyni og eiga þau fjögur börn og 11 barnabörn. 2) Hafsteinn, f. 1959, giftur Ágústu Björnsdóttur og eiga þau tvo syni. 3) Ríkharður, f. 1961, giftur Guðbjörgu Maríu Sigmundsdóttur og eiga þau þrjú börn og sex barnabörn. 4) Kári Helgfell, f. 1962, kvæntur Rut Sigurrós Hannesdóttur og eiga þau tvo syni. 5) Jónas Þorgeir,f. 1967, kvæntur Hilmu Lind Guðmundsdóttur og eiga þau þrjú börn og tvö barnabörn. 6) Magnús Ástþór, f. 1969, kvæntur Rósu Guðnýju Steinarsdóttur og eiga þau þrjá syni. 7) Ásthildur, f. 1972, gift Grétari Urðari Karlssyni og eiga þau þrjú börn.

Jónas gekk í farskóla í Eiðaþinghá og var einn vetur í Alþýðuskólanum á Eiðum. Hann tók við búskap á Uppsölum 1948, fyrst í samstarfi við foreldra sína þar til Ásta flytur í Uppsali 1955. Jónas var bóndi á Uppsölum og byggði upp húsakost, ræktaði túnin og var frumkvöðull skógræktar á jörðinni. Seinustu búskaparárin voru Ásta og Jónas í félagsbúi með Kára syni sínum þar til þau flytja í Egilsstaði 1994. Með búskapnum starfaði Jónas sem héraðslögregluþjónn um 20 ára skeið. Þá gegndi hann stöðu hreppstjóra í Eiðaþinghá árin 1973-1994.

Jónas tók virkan þátt í félagsstörfum í sveitinni og á Fljótsdalshéraði. Hann tók m.a. þátt í kórastarfi, vann að skógræktarmálum, hagsmunamálum bænda og starfaði með Lionsklúbbnum Múla.

Útför Jónasar verður gerð frá Egilsstaðakirkju í dag, 10. mars 2012, og hefst athöfnin kl. 14.

Þú ert farinn eftir sit ég ein

aftur skilur leiti milli vega.

Í mínu hjarta minning fersk og hrein

mildar söknuð, léttir þungan trega.

Við gengum snemma út á lífsins leið

lögðum saman krafta okkar tveggja.

Þó stundum virtist gatan ekki greið

gæfan fylgdi ætíð starfi beggja.

Þegar lífs míns orka förlast fer

flyst á milli heima andans kraftur.

Handan fljótsins bústað býrð þú mér

og bíður mín, þá kem ég til þín aftur.

(Hákon Aðalsteinsson)

Elsku vinur. Hjartans þakkir fyrir öll árin okkar og allt sem við áttum saman.

Guð blessi þig og varðveiti.

Þín

Ásta.

Ég kveð þig, minn faðir, nú komin er stund

sem kveið ég svo fyrir að lifa.

En þú ert nú horfinn á feðranna fund

með fögnuði tekið á himneskri grund.

Í söknuði sit ég og skrifa.

Þín lundin var sköpuð af gimsteinagerð

og gæska úr hjartanu sprottin.

Mig langar að þakka þér farsæla ferð

með friðsælli gleði ég kveðja þig verð.

Nú geymir þig dýrðlegur Drottinn.

(Birgitta H. Halldórsdóttir)

Ég, lítil stelpa, trítlandi á eftir þér á leiðinni í útihúsin eða með mína litlu hönd í þinni stóru hendi að fylgja þér í sveitaverkin, þetta eru mínar fyrstu minningar um þig sem koma upp í hugann. Í minningunni finnst mér ég oftast hafa verið með þér eða vilja fylgja þér. Stundum hef ég eflaust verið þreytandi og ætlað mér meira en ég gat en hugurinn stóð til að geta hjálpað þér. Enda var mér treyst fyrir ótrúlegustu verkum snemma á lífsleiðinni og þú hefur ætíð hvatt mig áfram í hverju því sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Fleiri minningabrot koma upp í hugann; þú að fara í fótbolta, á ball sem lögregluþjónn, á söngæfingar, á fundi og í heimsóknir á næstu bæi. Við í bústörfunum, sérstaklega fjárhúsunum. Fyrsta stórferðalag fjölskyldunnar að mínu mati en þá var Fjarðahringurinn farinn á gömlum Willys-jeppa. Síðar skemmtilegu utanlandsferðirnar okkar Lalla með ykkur mömmu og allar samverustundirnar í Hléskógunum. Það er yndislegt að eiga þessar minningar um þig nú er leiðir skilur.

Þú áttir mörg áhugamál utan fjölskyldunnar og vinnunnar. En fjölskyldan okkar er stór og því var oft gestkvæmt, bæði á Uppsölum og í Hléskógunum. Það þóttu þér bestu stundirnar þegar frændfólk og vinir komu í heimsókn, varst glaður í góðra vina hópi. En umfram allt varstu bóndi og byggðir upp jörðina þína af einstökum dugnaði.

Síðustu 17 ár hefur fjölskylda mín verið svo einstaklega heppin að búa í sama húsi og þið mamma. Hafa börnin mín notið þess að hafa afa og ömmu í nágrenninu og við hjónin notið samverustunda með ykkur mömmu. Þær hafa verið margar ferðirnar milli hæða til að spjalla um daginn og veginn, fá sér kaffibolla og taka í spil. En spilamennskan var eitt af því fáa ásamt bíltúrunum okkar sem heilsa þín leyfði af tómstundagamni síðustu ár. Þér fannst erfitt að geta ekki ferðast eins og hugurinn stóð til. En ávallt stóð mamma sem klettur þér við hlið og studdi þig og hjúkraði síðustu árin. Fyrir það þökkum við henni nú að leiðarlokum. Þú kunnir svo sannarlega að meta þá þjónustu sem þú fékkst og þér fannst best að geta verið heima.

Elsku pabbi, fyrir allar þessar yndislegu minningar og stundir vil ég þakka og veit að vel hefur verið tekið á móti þér þar sem þú ert núna.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Þín dóttir,

Sigurlaug.

„Eitt sinn verða allir menn að deyja“ segir í fallegu ljóði eftir Vilhjálm Vilhjálmsson. Þó það sé staðreynd þá varð það mér afskaplega sárt, elsku pabbi, að þurfa að kveðja þig, en svona er nú víst lífið. Það hlaut að koma að þessu. Þú varst búinn að heyja baráttu síðastliðin ár sem margir hefðu ekki ráðið við. Aldrei heyrði ég þig kvarta þó það sæist að þér leið ekki vel. Nú ertu fallinn frá, saddur lífdaga.

Mig langar til að þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig um ævina. Alltaf var gott að koma til ykkar mömmu og setjast niður, hvort sem mig vantaði ráð eða bara til að spjalla. Þú hafðir nú lúmskt gaman af því þegar ég var að fíflast í þér og þegar ég var að reyna að hneyksla systkini mín.

Þú hjálpaðir mér að verða að þeim manni sem ég er í dag og reyni ég að lifa eftir þeim lífsreglum sem mér fannst þú lifa eftir. Eitt er það þó sem ég man best eftir og þú minntir mig reglulega á og það var máltækið „Það læra börnin sem fyrir þeim er haft“. Ég reyni að fara eftir því vegna þess að í því felst mikill sannleikur. Ég minnist þeirra ánægjulegu stunda sem við áttum saman, hvort sem það var í sveitinni eða þegar þegar þið mamma fluttuð í Egilsstaði. Stutt er að minnast sunnudagsrúntanna okkar núna í febrúar og síðan þeirra stunda sem ég var hjá þér á sjúkrahúsinu seinustu dagana þína. Það var mér mikils virði.

Þú varst okkur Rósu ávallt góður og þú minntir mig alltaf á það hve heppinn ég væri og að það væri ekki sjálfgefið. Þú varst drengjunum okkar einstaklega góður og eru þeir heppnir að hafa átt þig að. Þeir sakna þín mikið en hugga sig við góðar minningar um góðan afa.

Elsku pabbi, takk fyrir allt. Ég veit að þér líður betur núna.

Blessuð sé minning þín.

Þinn sonur,

Magnús Ástþór.

Elsku afi, það er sárt að hugsa til þess að þú sért farinn og við eigum ekki eftir að heimsækja þig eða fá þig í heimsókn framar. En þú þráðir hvíldina eftir langt veikindastríð, og vonum við að þér líði vel núna. Við eigum margar minningar um þig elsku afi, t.d. var gaman þegar þú passaðir okkur þegar við vorum litlir á meðan mamma og pabbi voru niðri í fjósi og söngst Guttavísur fyrir okkur og kallaðir okkur hjartakóngana þína.

Eins munum við aldrei gleyma þeim stundum þegar við vorum að spila á spil heima hjá þér eftir að þið amma fluttuð í Egilsstaði og manstu afi hvað okkur fannst kálið með sykrinum gott sem amma gaf okkur þegar við komum og borðuðum hjá ykkur? Ævistarf þitt elsku afi er hér á Uppsölum og komum við til með að njóta þess um ókomna tíð. Við ætlum því að halda minningu þinni á lofti hér eins og við getum. En að lokum er eitt sem aldrei mun gleymast, það er góð minning um þig, elsku afi.

Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann allsherjardóm

sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu genginn á guðanna fund

það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingrímsson)

Kveðja,

Marteinn Gauti og

Atli Berg Kárasynir.

Það var alltaf mikil tilhlökkun að koma í Uppsali til afa og ömmu. Heyskapartíminn var þar sérstaklega í uppáhaldi. Til að byrja með reyndi maður að bifa stórum böggum og gekk það misvel og oft var maður við það að gefast upp. Afi kunni hinsvegar á okkur guttana, rétti okkur fernu af mysu og sagði okkur að ef við ætluðum okkur að verða hraustir og eiga séns í að vinna kókstrákana í Reykjavík í fótbolta yrðum við að drekka mysu. Við þömbuðum mysuna og réðumst síðan á baggana, margfalt sterkari.

Þrettán ára gamall réð ég mig sem vinnumann hjá afa og Kára. Ég man ennþá þegar afi fór með mér upp á tún til að kenna mér á traktorinn. Ég átti að fá að slóðadraga, allt gekk þetta vel og sennilega fór brosið ekki af andliti mínu næstu daga. Já það var ekki hægt að líkja þessu við það að liggja í blómabeði í unglingavinnunni og reyta arfa. Næstu sumur liðu í sveitinni, alltaf nóg að gera, hvort sem verið var að mjólka, heyja, planta eða viðhalda girðingum. Þegar líða fór að bílprófi fórum við afi á rúntinn á Suzuki-bílnum hans. Við byrjuðum á Uppsölum og keyrðum niður að vegi. Þegar þangað var komið sagði afi: „Beygðu til vinstri, við höldum áfram.“ Ég var tregur til og segi við gamla: „En hvað ef við mætum löggunni?“ „Löggunni,“ segir afi, „ég spyr þá nú bara hvort þeir viti ekki hver ég er,“ og glotti.

Í seinni tíð áttum við marga skemmtilega rúnta um sveitirnar hér í kring, niður í Mjóafjörð og fleiri skemmtilega staði. Þú áttir alltaf til skemmtilegar sögur frá fyrri tíð af þeim stöðum sem við komum á. Allt er þetta aðeins brot af þeim góðu minningum af duglegum og skemmtilegum manni sem ég leit alltaf mikið upp til.

Elsku amma, mikið var hann afi lánsamur að eiga eins góða konu og þig sér við hlið. Maður getur ekki annað en dáðst að því hversu sterk þú hefur verið í gegnum veikindi hans enda sagði hann oft að hann vissi ekki hvar hann væri án þín, svo samrýnd voruð þið.

Ég kveð þig afi minn með kærri þökk fyrir allt,

Jónas Hafþór.

Í dag kveð ég einn þeirra manna sem mér hefur þótt hvað vænst um á ævinni. Orð fá því ekki lýst hversu mikið ég mun sakna þess að skokka ekki niður stigann til þín og ömmu, setjast í lazy boy-stólinn við hliðina á þér og spjalla um allt og ekkert en þó aðallega hlusta á þig tala um hvað þessir stjórnmálamenn vita ekkert í sinn haus. Undir það síðasta fannst mér þó best að sitja og halda í hönd þína, öll orð voru óþörf.

Þú hafðir þínar sérþarfir um margt, pönnukökurnar áttu að vera nánast svartar með miklum sykri, skyrið hrært með mjólk og miklum sykri enda var alltaf talað um afapönnukökur og afaskyr. Alltaf mun ég hugsa um þig, manninn sem kenndi mér flest þau spil og kapla sem ég kann, þegar ég mun spila kana í framtíðinni. Allir þurftu að fylgjast með þér til að passa að þú svindlaðir ekki, þó þú værir oft ranglega sakaður um svindl þar sem fólk skildi engan veginn hvernig þú fórst að því að vinna með engin spil á hendi. Þú vildir alltaf spila með mér og kallaðir mig happa, því ég fékk alltaf öll spilin og bjargaði þér oft frá falli þegar ég þú sagðir 10 slagi með tvö mannspil eða svo.

Þú sast sjaldnast á þínum skoðunum hvort sem fólk vildi heyra þær eða ekki. Sjálfstæður, vitur og góður maður sem ól upp (með góðri hjálp frá ömmu) góða og stóra fjölskyldu og var dáður af henni.

Ég mun muna þig sem einstaklega sterkan mann, fyrir að ná að standa svona lengi af þér öll þau veikindi sem þig hrjáðu. Þú varst samt ótrúlega heppinn að hafa hana Ástu ömmu mína sem stóð eins og stytta þér við hlið í gegnum þetta allt. Við munum öll passa hana rosalega vel fyrir þig. Ég vona að þér líði betur þarna uppi hjá Guði, elsku afi minn.

Leiði þig í hæstu heima

höndin drottins kærleiks blíð.

Ég vil biðja Guð að geyma

góða sál um alla tíð.

Öðrum stærra áttir hjarta

æ þín stjarna á himni skín.

Myndin geymir brosið bjarta

blessuð veri minning þín.

(Friðrik Steingrímsson.)

Þín

Anna Berglind.

Elsku afi.

Þó það taki mig sárt að þurfa að kveðja þig þá geri ég það aðeins með góðum minningum. Þú bjóst yfir þeim frábæra eiginleika að geta bent á kosti manns sem hlýjaði manni að innan. Þú barðist við erfið veikindi en kvartaðir aldrei enda lít ég á þig sem mikla hetju og stríðsmann. Þú varst alltaf tilbúinn að gera allt fyrir mig, hvort sem það var að bjóða mér í mat eða keyra mig þegar ég þurfti t.d. á æfingar og annað. Það var alltaf gaman að koma í heimsókn til ykkar ömmu og minnist ég þess sérstaklega þegar ég var lítill að þú kallaðir mig „hitapokann“ þinn því þér þótti svo gott að hafa mig til þess að hlýja þér á nóttunni þegar ég fékk að gista hjá ykkur. Núna verð ég bara að hlýja ömmu í staðinn.

Við fórum oft saman í fjósið á Uppsölum og áttum við margar góðar stundir þar og þá varstu nú sprækur. Veiðiferðirnar okkar í lækinn voru líka skemmtilegar.

Ég hef óteljandi minningar um þig sem allar eru ánægjulegar og ætla ég að varðveita þær.

Takk fyrir allt, afi. Þú varst bestur.

Þinn afastrákur,

Steinar Aron.

Elsku afi okkar.

Nú hefur löng og viðburðarík ævi þín runnið sitt skeið og af nógu er að taka þegar við hugsum um allar þær stundir sem við höfum átt með þér. Þú varst okkur alltaf svo góður og kenndir okkur margt sem við getum haft með okkur sem veganesti inn í framtíðina.

Allar stundirnar á Uppsölum hér í den tíð og ferðirnar sem við fórum um sveitir eru ógleymanlegar, svo þegar þið amma fluttuð inn í Egilsstaði þá var alltaf svo gott að koma til ykkar í Hléskógana. Við bræðurnir verðum duglegir að heimsækja ömmu því við vitum hvað þér finnst mikilvægt að hún hafi það sem best.

Við kveðjum með miklum söknuði og þakklæti en vitum hinsvegar að nú ertu kominn á rólegan stað eftir allt sem þú hefur áorkað um ævina.

Þínir strákar,

Viðar Örn og

Jónas Ástþór.