Troðslur Rodney Alexander leikmaður ÍR tróð tvívegis með miklum tilþrifum í Ásgarði.
Troðslur Rodney Alexander leikmaður ÍR tróð tvívegis með miklum tilþrifum í Ásgarði. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Garðabæ Kristján Jónsson kris@mbl.is ÍR-ingar eru ekki dauðir úr öllum æðum í Iceland Express-deildinni í körfuknattleik.

Í Garðabæ

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

ÍR-ingar eru ekki dauðir úr öllum æðum í Iceland Express-deildinni í körfuknattleik. Fyrir leikina í gærkvöldi var nú heldur langsótt að ÍR gæti komist í úrslitakeppnina en liðið kom á óvart og skellti Stjörnunni í Garðabænum 102:98. Gunnari Sverrissyni þjálfara hefur tekist að „troða“ ÍR inn í úrslitakeppnina síðustu tvö árin og það skyldi þó ekki vera að honum tækist það þriðja árið í röð.

ÍR-ingar eru nú aðeins tveimur stigum á eftir Tindastóli og Njarðvík sem sitja í 7. og 8. sæti deildarinnar þegar þrjá umferðir eru eftir. ÍR á heimaleik gegn Haukum í næstu umferð sem eru í 11. sæti og berjast fyrir lífi sínu í deildinni. Með sigrinum í gær sögðu ÍR-ingar nokkurn veginn skilið við fallbaráttuna því þeir eru sex stigum fyrir ofan Hauka. Í tveimur síðustu umferðunum eiga ÍR-ingar eftir að mæta Keflvíkingum á útivelli og KR-ingum á heimavelli. Vafalaust þætti mörgum stuðningsmönnum ÍR ljóðrænt að tryggja sig inn í úrslitakeppnina með því að sigra Íslandsmeistara KR með Hreggvið Magnússon innanborðs í lokaumferðinni.

ÍR náði sextán stiga forskoti

Leikurinn í gærkvöldi var nú engin sérstök skemmtun lengi framan af. Bandaríkjamennirnir hjá ÍR, Robert Jarvis og Rodney Alexander, buðu reyndar upp á glæsilega körfu í fyrri hálfleik þegar Alexander greip sendingu Jarvis í loftinu og tróð með tilþrifum. Þessi kappar kunna greinilega ýmislegt fyrir sér og þeir áttu eftir að koma meira við sögu í leiknum enda voru þeir í miklu stuði. Jarvis skoraði 20 stig í fyrri hálfleik og Renato Lindmets gerði þá 18 fyrir Stjörnuna.

Garðbæingar voru varla mjög ánægðir með sinn leik í fyrri hálfleik en munurinn var þó aðeins fimm stig að honum loknum. Vert er að geta þess að þeir léku án Marvins Valdimarssonar sem er með streptokokkasýkingu. ÍR-ingar gáfu í í þriðja leikhluta og náðu þá sextán stiga forskoti en fyrir síðasta leikhlutann munaði þrettán stigum á liðunum. Garðbæingar höfðu fram að því verið að velta sér nokkuð upp úr dómgæslu en leikmenn liðsins nældu í nokkrar tækni- og óíþróttamannslegar villur í fyrri hálfleiknum. Þjálfari þeirra Teitur Örlygsson er nú líklega lítill áhugamaður um slíkt agaleysi og hann sagði við sína menn fyrir síðasta leikhlutann, að engar afsakanir væru í boði og að þeir gætu sjálfum sér um kennt.

Stjarnan hleypti öllu í bál og brand

Þessi ábending Teits virtist virka vel því Stjörnunni tókst að hleypa spennu í leikinn í síðasta leikhlutanum. Þeir minnkuðu muninn jafnt og þétt en Jarvis reyndist þeim erfiður og gat skorað þegar á þurfti að halda. Þrátt fyrir allt þá var ÍR tíu stigum yfir þegar innan við tvær mínútur voru eftir. Þá kom hins vegar magnaður kafli hjá Garðbæingum sem tókst að hleypa öllu í bál og brand á lokasekúndunum. Úr varð einn af þessum leikjum sem tekur óratíma að klára. Um tíma fannst manni sem ÍR-ingar þyldu ekki álagið enda náði Stjarnan að minnka muninn niður í tvö stig. Þegar maður hélt að ÍR-ingar hefðu ekki það sem til þurfti til að landa stigunum mikilvægum skoraði Jarvis glæsilega þriggja stiga körfu og í framhaldinu tróð Alexander hrikalega yfir leikmenn Stjörnunnar. Þó að ÍR-ingar sýndu ýmis merki taugaveiklunar tókst þeim því að innsigla sigurinn með nokkrum glæsibrag. Stjörnumenn eiga einnig hrós skilið fyrir sitt áhlaup sem var býsna magnað og hefði sjálfsagt lengi verið í minnum haft ef þeir hefðu stolið sigrinum. Þeirra vegna var frammistaðan fyrstu þrjá leikhlutana vonandi ekki fyrirborði fyrir úrslitakeppnina sem framundan er. Stjarnan á bæði eftir að fara til Keflavíkur og Grindavíkur í síðustu umferðunum en fær þess á milli Fjölni í heimsókn í Ásgarð.