Gunnlaugur Briem Pálsson vélaverkfræðingur fæddist í Reykjavík 19. júní 1932. Hann andaðist á heimili sínu 2. mars 2012.

Útför Gunnlaugs fór fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík 9. mars 2012.

Góðvinur minn Gunnlaugur Pálsson er genginn.

Vináttu okkar má rekja til skólaáranna í Svíþjóð fyrir um sex áratugum. Þessi vinátta hefur oft borið keim af „fóstbræðralagi“ og höfum við verið samstiga um margt í gegnum tíðina, t.d. voru okkar elstu börn, Sólveig og Páll, skírð saman í Masthuggskyrkan í Gautaborg.

Marga fjöruna höfum við sopið saman. Veiðiferðir með börnum og vinum í Reykjadalsá í Borgarfirði og í Goðdal á Ströndum. Allt í boði Gulla og Ingu, en þau voru ávallt höfðingjar heim að sækja. Einnig koma upp í hugann skíðaferðir í Kerlingarfjöll og Alpana, jeppaferðir um hálendi Íslands, skútusigling í Miðjarðarhafi og fleira mætti tína til. Í þessari upptalningu á „fjörusopunum“ má ekki gleyma okkar daglegu sundferðum í Laugardalslaug síðustu fjóra áratugi, en þarna bættum við hvorttveggja heilsu og vináttu. Við Erla minnumst með þakklæti þeirra mörgu gleðistunda sem við höfum átt með Gulla, Ingu og þeirra börnum.

Gulli var gjörvulegur á velli, fríður sýnum og með ljúfa lund, brá aldrei skapi. Hann var traustur vinur og einlægur í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur. Örlögum sínum tók hann með sömu ró og einkenndi hans ævidaga. Hann átti því láni að fagna í lífinu að eiga góða eiginkonu og elskuleg börn. Gulli var vélaverkfræðingur að mennt og leitaði ég oft ráða hjá honum. Hann byggði upp eigið fyrirtæki, Varma hf., en það nýtur virðingar margra fagmanna.

Við Erla og börn okkar vottum að leiðarlokum Ingu, Páli, Önnu Gyðu, Jóhönnu og öðrum ástvinum Gunnlaugs djúpa samúð um leið og við kveðjum góðan dreng.

Manfreð Vilhjálmsson.