Nesið Seltjarnarnesbær hefur engar ákvarðanir tekið um viðbrögð.
Nesið Seltjarnarnesbær hefur engar ákvarðanir tekið um viðbrögð. — Morgunblaðið/Ómar
„Í stuttu máli sagt þá erum við alfarið ósammála þeirri niðurstöðu sem ráðuneytið kemst að í úrskurði sínum,“ segir Anton Björn Markússon, bæjarlögmaður Seltjarnarnesbæjar, en innanríkisráðuneytið hefur úrskurðað að bæjarstjórn...

„Í stuttu máli sagt þá erum við alfarið ósammála þeirri niðurstöðu sem ráðuneytið kemst að í úrskurði sínum,“ segir Anton Björn Markússon, bæjarlögmaður Seltjarnarnesbæjar, en innanríkisráðuneytið hefur úrskurðað að bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar hafi gerst brotleg við þágildandi sveitarstjórnarlög þegar hún sagði Ólafi Melsteð, fyrrverandi framkvæmdastjóra tækni- og umhverfissviðs bæjarins, upp störfum.

„Í aðdraganda þess að starf hans var lagt niður var ráðist í ákveðnar stjórnkerfisbreytingar sem ráðuneytið viðurkennir að staðið hafi verið að samkvæmt lögum og reglum í hvívetna. Þar af leiðandi erum við ósammála þeirri niðurstöðu að okkur hafi borið að segja ráðningarsamningi hans upp sérstaklega,“ segir Anton.

Anton segir enga ákvörðun hafa verið tekna um framhaldið en bærinn muni ekki bregðast við á þessu stigi málsins. Þó útilokar hann ekki að bæjaryfirvöld muni eiga frumkvæði að sáttaumleitunum en sú ákvörðun yrði pólitísks eðlis og ekki á hans forræði, segir hann.

Jóhann H. Hafstein, lögmaður Ólafs, sagði í Morgunblaðinu í gær að yrði ekki um viðbrögð að ræða af hálfu bæjarstjórnarinnar yrði næsta skref að höfða mál gegn bænum.

Anton segir mögulegt að bærinn krefjist ógildingar á úrskurðinum en að öðru leyti eigi Ólafur næsta leik. „Ef menn telja að einhver réttur hafi verið brotinn er mjög eðlilegt að menn sæki hann og þá eftir atvikum óski eftir viðræðum um bætur eða höfði hreinlega dómsmál,“ segir Anton.

holmfridur@mbl.is