Spenntur Gylfi Þór Sigurðsson mætir Manchester City á morgun.
Spenntur Gylfi Þór Sigurðsson mætir Manchester City á morgun. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson
Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is „Það verður gaman að takast á við toppliðið og við ætlum okkur svo sannarlega að reyna að vinna. Við höfum staðið okkur vel á móti bestu liðunum og vonandi heldur það áfram.

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

„Það verður gaman að takast á við toppliðið og við ætlum okkur svo sannarlega að reyna að vinna. Við höfum staðið okkur vel á móti bestu liðunum og vonandi heldur það áfram. Við þurfum þrjú stig til að bæta okkar stöðu í deildinni og City vill líka vinna enda liðið að berjast um titilinn. Vonandi situr einhver þreyta í þeirra liði eftir Evrópuleikinn í vikunni,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea, við Morgunblaðið í gærkvöld. Gylfi verður í eldlínunni með liðinu á Liberty Stadium í Swansea á morgun þegar nýliðarnir fá Manchester City í heimsókn.

Gylfi hefur staðið sig frábærlega með Swansea frá því hann var lánaður til félagsins frá Hoffenheim. Um síðustu helgi skoraði hann bæði mörk sinna manna gegn Wigan og fékk mikið lof fyrir frammistöðu sína. Spurður hvort hann mæti ekki fullur sjálfstrausts í leikinn á móti City sagði Gylfi; „Jú, ég geri það. Það gekk vel í síðasta leik og ég hlakka bara mikið til leiksins. Vonandi get ég lagt eitthvað af mörkum til að reyna að stoppa City og það væri ekki leiðinlegt þar sem ég er mikill United-maður,“ sagði Gylfi og hló við en hann hefur haldið með Manchester United frá því hann var smástrákur. Frammistaða Gylfa með Swansea er farin að vekja mikla athygli og í vikunni var hann orðaður við ítölsku stórliðin Inter og Juventus. „Það koma svona fréttir þegar manni gengur vel en ég á tvö ár eftir af samningi mínum við Hoffenheim svo félagið ræður ferðinni. Það eina sem ég hugsa um er að fá að spila fótbolta. Ég fékk það ekki hjá Hoffenheim en ég geri það hjá Swansea og er virkilega ánægður þar en það kemur bara í ljós eftir tímabilið hvað tekur við hjá mér.“