Málarinn og andlitin „Ég vildi finna ólíkar manngerðir að mála, bæði á götunni og fólk sem ég þekkti,“ segir Helgi Þorgils um portrettverkin.
Málarinn og andlitin „Ég vildi finna ólíkar manngerðir að mála, bæði á götunni og fólk sem ég þekkti,“ segir Helgi Þorgils um portrettverkin. — Morgunblaðið/Golli
Þessar myndir standa fullkomlega einar sér, en það er gaman að taka þær saman, svona til hátíðabrigða,“ segir Helgi Þorgils Friðjónsson myndlistarmaður um portrettmyndir sínar en sýning á þeim verður opnuð í Studio Stafni, Ingólfsstræti 6, í dag...

Þessar myndir standa fullkomlega einar sér, en það er gaman að taka þær saman, svona til hátíðabrigða,“ segir Helgi Þorgils Friðjónsson myndlistarmaður um portrettmyndir sínar en sýning á þeim verður opnuð í Studio Stafni, Ingólfsstræti 6, í dag kl. 16.

Á sýningunni er röð portrettmynda af fólki sem hefur setið fyrir hjá listamanninum á liðnum árum, að hans ósk, og eru þær ýmist málaðar í olíu eða dregnar með kolum á striga. Sumar eru af fólki sem Helgi hefur hitt í bönkum eða verslunum og boðið að sitja fyrir, aðrar eru af vinum hans og nokkrar af fólki sem er þekkt héðan og þaðan.

„Ég hef alla tíð gert portrett en það var um 1998 sem ég ákvað að gera myndröð með þessum hætti,“ segir hann. Á þessum tíma eru portrettin orðin um 50 og á sýningunni er vel rúmur helmingur þeirra, verk sem ekki hafa verið sýnd opinberlega. Helgi segist eiga nokkrar áhugaverðar bækur sem snúast um eiginleika manna og ein þeirra, Manngerðir eftir gríska heimspekinginn Þeófrastos, var ein helsta kveikjan að þessum portettum.

„Þeófrastos býr til hálfgerðar erkitýpur sem hafa verið notaðar fram á þennan dag, til að mynda í skopmyndum og myndlist, og það var einhverskonar kveikja. Ég vildi finna ólíkar manngerðir að mála, bæði á götunni og fólk sem ég þekkti. Ég hef líka sóst eftir því að þessar fyrirsætur væru eitthvað sem kalla má „heilt fólk“, fallegar hið innra, og því stærra sem úrvalið verður, þeim mun áhugaverðara safn manngerða verður þetta,“ segir hann.

Fyrirsæturnar þurfa að mæta nokkrum sinnum í vinnustofu Helga og sitja fyrir. „Að því leyti er þetta hefðbundið portrett en uppstillingin er eins og passamyndir eru teknar. Það er síðan mikilvægt að fólk tali sig inn í myndina, í samræðum okkar, en það finnst mér styrkja manngerðina.“

Enn einn þátt í þessu segir Helgi hafa verið einfaldlega að æfa sig í að mála allrahanda fólk, „mismunandi nef og eyru. En mér finnst verkefnið verða heilsteyptara eftir því sem andlitunum fjölgar. Ég ætla að mála 15, 20 í viðbót.“

Sýning Helga Þorgils stendur til 24. mars og er hún opin alla daga nema mánudaga, klukkan 14 til 17.

efi@mbl.is