Helgi Hjörvar
Helgi Hjörvar
Andri Karl Sigrún Rósa Björnsdóttir Samkeppniseftirlitið veitti í gær fjármálafyrirtækjum skilyrta heimild til að vinna afmarkað saman að því að hraða úrvinnslu skuldamála, sem varða gengisbundin lán, í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands frá 15.

Andri Karl

Sigrún Rósa Björnsdóttir

Samkeppniseftirlitið veitti í gær fjármálafyrirtækjum skilyrta heimild til að vinna afmarkað saman að því að hraða úrvinnslu skuldamála, sem varða gengisbundin lán, í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands frá 15. febrúar sl. Meðal skilyrða Samkeppniseftirlitsins er að fjármálafyrirtæki fresti fullnustuaðgerðum, vegna þeirra krafna sem er ljóst að falli undir dóm Hæstaréttar.

Beita ekki vanefndarúrræðum

Fjármálafyrirtæki munu ekki beita vanefndarúrræðum gegn þeim sem ekki greiða af ólöglegum gengistryggðum lánum, á meðan óvissa ríkir eftir fyrrgreindan dóm. Fulltrúar viðskiptabankanna, Lýsingar og Dróma gengu á fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í gær. Þar mæltist nefndin til þess að fjármálafyrirtækin virtu leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins frá 1. mars, um að stilla innheimtuaðgerðum í hóf á meðan óvissan varir.

Niðurstaða um miðjan mánuð

„Þessi fyrirtæki eru að meta hjá sér lánasöfnin miðað við fjórar ólíkar sviðsmyndir í túlkun dómsins. Niðurstaða úr því mun liggja fyrir um miðjan mánuðinn,“ segir Helgi Hjörvar, formaður nefndarinnar. Verið er að skoða ýmsar leiðir fyrir þá sem telja sig þurfa að sækja rétt sinn vegna viðskipta við fjármálastofnanir. Eftir helgina mun nefndin flytja frumvarp um lengingu á málshöfðunarfresti. Helgi segir sumar spurningar þess eðlis að aðeins Hæstiréttur geti svarað þeim.

Einnig er nefndin að skoða hvaða leiðir eru færar hvað varðar heimildir dómstóla til að flýta meðferð þeirra mála sem geta leyst úr mörgum þeim stóru álitaefnum sem á enn eftir að svara um túlkun hæstaréttardómsins. Helgi reiknar með að niðurstaða þar um fáist eftir helgina.

Í ljósi óvissunnar velta lántakendur því fyrir sér, eiga þeir að borga áfram af sínum lánum.

„Það er auðvitað ákvörðun sem hver og einn þarf að taka fyrir sig,“ segir Helgi. Hann bendir á að þau lán sem dómurinn nær klárlega til séu fasteignalán. Í flestum sé mikið eftir af höfuðstólnum og skuldarinn í þeirri aðstöðu að hægt er um vik að skuldajafna því sem hann kann að eiga kröfu um á fjármálafyrirtækið.

Eðlilegt að velta þessu fyrir sér

„Þetta er meira álitaefni fyrir þá sem eru með styttri samninga þar sem jafnvel fáir gjalddagar standa eftir, til dæmis í bílalánum sem ýmislegt bendir til að gætu fallið undir þetta dómafordæmi. Þá er eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvernig þeir eigi að bregðast við. Rétt er að undirstrika það að ekki er farið í nein vanefndarúrræði.“