Natallia Dobrynska
Natallia Dobrynska
Ólympíumeistarinn Natallia Dobrynska frá Úkraínu vann fyrstu gullverðlaunin á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum innanhúss sem hófst í Istanbul í Tyrklandi í gær. Dobrynska hrósaði sigri í fimmtarþraut og setti um leið nýtt heimsmet.

Ólympíumeistarinn Natallia Dobrynska frá Úkraínu vann fyrstu gullverðlaunin á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum innanhúss sem hófst í Istanbul í Tyrklandi í gær. Dobrynska hrósaði sigri í fimmtarþraut og setti um leið nýtt heimsmet. Hún hlaut samtals 5.013 stig og bætti met Irinu Belovu frá Rússlandi en gamla metið var 4.991 stig og var orðið tíu ára gamalt.

Jessica Ennis frá Bretlandi, sem átti titil að verja, varð að gera sér silfurverðlaunin að góðu en hún hlaut samtals 4.965 stig og bronsverðlaunin féllu Austru Skujyte frá Litháen í skaut en hún hlaut samtals 4.802 stig.

Í fimmtarþraut er keppt í 60 metra grindahlaupi, hástökki, langstökki, kúluvarpi og 800 metra hlaupi.

„Þetta er minn dagur. Frábær dagur. Ég er virkilega glöð,“ sagði Dobrynska eftir af hafa tekið á móti gullverðlaunum sínum.

„Þetta er versta tilfinning í heimi,“ sagði hins vegar fráfarandi heimsmeistari, Jessica Ennis. „Þetta eru vonbrigði því ég vildi mæta hingað og verja titil minn,“ sagði Ennis. gummih@mbl.is