Rokk „Gripurinn stendur vel undir vonum og væntingum,“ segir m.a. í dómnum um Vicky.
Rokk „Gripurinn stendur vel undir vonum og væntingum,“ segir m.a. í dómnum um Vicky.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rokkkvartettinn Vicky vakti þónokkurð umtal fyrir þétta frammistöðu á síðustu Airwaves-hátíð og í kjölfarið magnaðist talsverð spenna fyrir breiðskífu þeirri sem hér er tekin til kostanna, en hún kom út seint á síðasta ári.

Rokkkvartettinn Vicky vakti þónokkurð umtal fyrir þétta frammistöðu á síðustu Airwaves-hátíð og í kjölfarið magnaðist talsverð spenna fyrir breiðskífu þeirri sem hér er tekin til kostanna, en hún kom út seint á síðasta ári. Gripurinn stendur vel undir vonum og væntingum því hann hefur að geyma bráðvel heppnað harðrokk þar sem saman fer ánægjulegur höggþungi og hugsandi lagasmíðar.

Rokk í þyngri kantinum er í eðli sínu að mörgu leyti íhaldssamt form tónlistar og afar auðvelt að festast í farinu eins og hver önnur gömul lumma. Það er gaman að segja frá því að Vicky tekst að skauta fram hjá flestum slíkum kviksyndum. Bæði er hljóðfæraleikurinn fantagóður og sándið þétt ásamt því að söngkonan Eygló Scheving fer hreinlega á kostum víðast hvar. Hún fyllir áreynslulaust upp á allt tómarúm, hvort sem hún syngur á mjúkum nótum eða dúndrar heilum hljóðvegg af rödd sinni yfir hlustandann. Vald hennar yfir röddinni er algert og passar frábærlega við tónlistina.

Mest er þó um lagasmíðarnar vert því þær eru nokkurn veginn jafngóðar plötuna í gegn með nokkrum toppum sem fá mann til að spila lagið viðstöðulaust aftur. Upphafslagið Lullaby er hörkugott, sömuleiðis Dramatica, Feel Good og Portrait. Þá síast How Do You Feel? hægt og rólega inn og situr svo pikkfast þegar það er á annað borð komið. Annars er óþarfi að tína til einstök lög, Cast A Light er dúndurgóð, höggþung og hressandi gegnumsneitt. Frumburður hljómsveitarinnar, Pull Hard, var um margt ágætur en hér taka fjórmenningarnir stökk fram á við og teljast hér með komin í framlínuna í hörðu rokki fyrir hugsandi fólk. Næst á dagskrá er að komast á tónleika með Vicky, það blasir við að það er geysiþétt upplifun. jonagnar@mbl.is

Jón Agnar Ólason