Kristján Jónsson kjon@mbl.

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Stjórnarflokkarnir hafa komist að samkomulagi um að lagt verði til í væntanlegri þingsályktun um virkjunarkosti að hugmyndir um þrjár virkjanir í Þjórsá verði settar í biðflokk, að sögn traustra heimildarmanna í flokkunum tveim. Nær víst sé að samkomulagið verði staðfest í ríkisstjórn og kynnt á næstu dögum. Jafnframt kemur fram að ekki verði hróflað við þeim tillögum um virkjanir á Reykjanesskaga sem verkefnisstjórn um rammaáætlun lagði fram í fyrra en hugmyndir um jarðvarmavirkjun við Hágöngulón og vatnsaflsvirkjun við Skrokköldu fari í biðflokk.

Samfylkingarmaðurinn Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra og Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra úr VG, lögðu í ágúst sl. fram drög að sameiginlegri þingsályktunartillögu um virkjunarkosti. Fjöldi umsagna barst um tillöguna en dregist hefur að ná samkomulagi um endanlega þingsályktunartillögu.

Tilslökun dugði ekki til

Heimildarmenn segja að óánægja sé meðal margra VG-liða vegna virkjana á Reykjanesskaga, þeir segi að þar verði útivistarperlum fórnað fyrir jarðvarmavirkjanir. Til stendur að reisa Holtavirkjun, Hvammsvirkjun og Urriðafossvirkjun í neðri hluta Þjórsár. Landsvirkjun lýsti því yfir árið 2007 að orkan úr þessum nýju virkjunum yrði ekki seld álverksmiðjum og öðrum stóriðjuverum. Var þannig komið til móts við þá sem eru andvígir stóriðju.

En gangi umrætt samkomulag stjórnarflokkanna um virkjanir eftir, er ljóst að þessi tilslökun fyrirtækisins hefur ekki dugað til. Liðsmenn VG hafa barist á móti virkjunum í neðri hluta Þjórsár með þeim rökum að þeim fylgi mikið umhverfisrask auk þess sem laxastofnum verði ógnað.

Mikið reiptog bak við tjöldin 4

Mörg megavött í bið
» Samanlagt afl í fyrirhuguðum þrem virkjunum í neðri hluta Þjórsár er um 265 megavött. Landsvirkjun segir að draga megi úr neikvæðum áhrifum á laxastofna í ánni með ýmsum mótvægisaðgerðum.
» Mikill jarðvarmi er við jaðar Hágöngulóns og ætlunin að virkja þar um 135 megavött.