Atvinna Atvinnulífið er heldur að rétta úr kútnum en fjarri fer að það hafi náð fyrri styrk enda er lítið fjárfest í dag.
Atvinna Atvinnulífið er heldur að rétta úr kútnum en fjarri fer að það hafi náð fyrri styrk enda er lítið fjárfest í dag. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Fjárfesting í landinu er enn í sögulegu lágmarki og því ljóst að enn er langt í land ef koma á fjárfestingu í eðlilegt form sem gerir hagkerfinu kleift að vaxa á sjálfbæran hátt.

Fjárfesting í landinu er enn í sögulegu lágmarki og því ljóst að enn er langt í land ef koma á fjárfestingu í eðlilegt form sem gerir hagkerfinu kleift að vaxa á sjálfbæran hátt. Þetta segir í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka sem birtir voru í vikunni. Er þar vitnað til nýrra talna Hagstofu Íslands en nýjustu tölur hennar benda til þess að hagvöxtur á sl. ári hafi verið 3,2% en á fjórða ársfjórðungi óx íslenska hagkerfið um 2,7% milli ára.

Einkaneysla tók, að því er Arion segir, vel við sér á árinu sem leið en 4% vöxtur varð í neyslu Íslendinga milli ára sem leiddi af sér talsverða aukningu í innflutningi milli ára, eða 6,4%. Á sama tíma varð 3,2% vöxtur í útflutningi milli ára. Fjármunamyndun hefur einnig tekið við sér á ný, en 13% aukning varð í fjárfestingu milli ára. Þetta er hins vegar ekki nóg. Hjól efnahagslífsins eru enn fjarri því kominn á þann snúning að nóg sé.

Þrátt fyrir hagvöxt milli ára og viðsnúning í fjárfestingu er ástandið brothætt. Fjárfesting í atvinnuvegum jókst í fyrsta sinn í fyrra frá hruni, eða um fjórðung. Hins vegar heldur hið opinbera að sér höndum og það dregur hlutfallslega aukningu í fjárfestingu niður, að mati Arion. Fasteignamarkaðurinn er að braggast og telur bankinn aukna eftirspurn eftir eignum einn helsta drifkraft 9% vaxtar í fjármunamyndun íbúðarhúsnæðis milli ára, fyrsta ár vaxtar eftir hrun.

sbs@mbl.is