Vígdís Auðunsdóttir fæddist í Borgarnesi 28. júní 1922, hún andaðist á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi 29. febrúar síðastliðinn.

Vigdís giftist Eyþóri Jóni Kristjánssyni hinn 3. janúar 1946, hann var fæddur 20. júlí 1918, dáinn 14. mars 1997. Þau eignuðust sex börn: Auðun, f. 1.8. 1946, d. 1.12. 2003, Kristján, f. 29.9. 1947, d. 29.4. 2009, María Ragnhildur, f. 26.11. 1948, Guðmundur, f. 6.8. 1952, Ingibjörg, f. 10.3. 1954, Þorsteinn, f. 10.3. 1954.

Vigdís bjó alla tíð í Borgarnesi.

Vigdís verður jarðsungin frá Borgarneskirkju í dag, 10. mars 2012, og hefst athöfnin kl. 14.

Ömmur eru mjúkar, með silfurgrátt hár, eiga alltaf eitthvað gott með kaffinu og eru þetta örugga skjól þar sem börn eru alltaf velkomin og mikilvæg bara eins og þau eru. Svona ömmu áttum við.

Elsku besta amma okkar, þú varst ekki kona margra orða. Þú þurftir heldur ekki að nota orð til að segja okkur það sem okkur þótti og þykir enn svo notalegt að vita og finna. Þetta fundum við þegar þú bakaðir handa okkur köku, bara af því við vorum að koma. Eða prjónaðir handa okkur peysu af því þig langaði til þess.

Þú varst alltaf mjög hrædd að ferðast yfir Brekkuna en þú lést það ekki stoppa þig og komst reglulega í heimsókn vestur. Það var alltaf mikil tilhlökkun þegar von var á ömmu og afa.

Alltaf komuð þið til að fylgjast með hverjum leiksigrinum á fætur öðrum. Þið misstuð sko ekki af einni einustu uppfærslu á vegum Grunnskólans í Búðardal sem eitthvert barnabarna ykkar tók þátt í. Öll sýndum við líka Óskarsverðlaunaleik í hvert skipti. Eða það virtist allavega alltaf vera þín skoðun.

Elsku amma, takk fyrir allt sem þú gafst okkur. Við munum halda áfram að njóta þess. Hvíldu í friði.

Ingibjörg, Vigdís og

Heiðrún Harpa.

Elsku amma, takk fyrir allar samverustundirnar sem við áttum, þær eru okkur kærar og munu lifa með okkur um ókomna tíð.

Lifðu sæl í ljóssins heimi

ljóð þér voru jafnan kær.

Í sínum faðmi guð þig geymi

gleðin var þér alltaf nær,

unaður hennar um þig streymi

eins og ferskur sunnanblær.

(Valdimar Lárusson.)

Hvíl í friði, elsku amma.

Fanney, Brynja og Ingibjörg.

HINSTA KVEÐJA

Þegar raunir þjaka mig
þróttur andans dvínar
þegar ég á aðeins þig
einn með sorgir mínar.
Gef mér kærleik, gef mér trú,
gef mér skilning hér og nú.
Ljúfi drottinn lýstu mér,
svo lífsins veg ég finni
láttu ætíð ljós frá þér
ljóma í sálu minni.
(Gísli á Uppsölum.)

Ég kveð þig frænka með þessu ljóði.
Hinrik Óskar
Guðmundsson
frá Auðsstöðum.

Elsku amma, takk fyrir allar samverustundirnar sem við áttum, þær eru okkur kærar og munu lifa með okkur um ókomna tíð.

Lifðu sæl í ljóssins heimi
ljóð þér voru jafnan kær.
Í sínum faðmi guð þig geymi
gleðin var þér alltaf nær,
unaður hennar um þig streymi
eins og ferskur sunnanblær.
(Valdimar Lárusson)

Hvíl í friði elsku amma.
Fanney, Brynja
og Ingibjörg.