(Sigurður) Guðgeir Ingvarsson fæddist 28. febrúar 1946 á Desjarmýri í Borgarfirði eystra. Hann lést á heimili sínu, Mánatröð 8b á Egilsstöðum, 14. febrúar 2012.

Útför Guðgeirs fór fram frá Fossvogskapellu í kyrrþey 24. febrúar og minningarathöfn var í Egilsstaðakirkju 28. febrúar.

Góðvild, örlæti, einlægni og glaðværð eru fyrstu orðin sem koma upp í hugann, kæri bróðir, við ótímabært fráfall þitt. Minningarnar streyma fram. Þú að koma heim eftir langa fjarveru á námsárunum, með gjafir handa okkur öllum, allar valdar sérstaklega fyrir hvern og einn af þinni einstöku innsýn og skilningi á okkur. Þú sem unglingur með þykka dökka hárið þitt, standandi í vindinum við húshornið til þess að fá réttu bylgjuna í Elvis-hárgreiðsluna. Þú að spila á hljóðfærin þín, sérstaklega harmonikkuna, sem við stríddum þér á að væri kærastan þín.

Þú hróðugur að koma úr grasaferð að segja mér frá sjaldgæfri plöntu sem þú fannst og hvernig þú hefðir greint hana frá annarri, sem mér fannst líta alveg eins út. Þú að fara í fuglaferðir að leita að hreiðrum og merkja fugla. Þá fór ég oft með og fékk að halda á ungunum á meðan þú settir merki á fótinn á þeim. Allt var vandlega skráð niður og sent fræðimönnum. Þú að kenna mér á bæjarlífið í fyrstu Reykjavíkurferðinni minni.

Þú með Anne fyrsta búskaparárið ykkar á Hávallagötunni þegar ég fékk að búa hjá ykkur. Þú að segja gamansögu og ætlaðir aldrei að geta klárað hana fyrir hlátri, þessum smitandi hlátri, sem fékk okkur öll til að engjast. Þú að kenna mér á FileMaker-forritið, sem þú gafst mér til þess að ég gæti flokkað plötusafnið eða annað sem þér fannst heldur óskipulagt hjá okkur. Þú að líta inn í stutta heimsókn, oftast með bók eða tímarit um einmitt eitthvað sem ég hefði gaman af að sjá. Þú að hringja til þess að spjalla og athuga hvernig við hefðum það, af þinni einstöku umhyggju fyrir okkur. Hafðu þökk fyrir allt og allt. Blessuð sé minning þín.

Þín systir,

Guðrún.