Halldóra Árnadóttir fæddist í Reykjavík þann 7. janúar 1941. Hún lést á heimili sínu, Ársölum 5, að morgni 2. mars 2012.

Útför Halldóru fór fram frá Digraneskirkju 9. mars 2012.

Elsku amma Dóra mín. Ég elska þig mjög mikið. Nú ert þú orðin engill og tekur á móti fólkinu sem er dáið. Þú varst rosalega góð amma. Elsku amma, þú varst svo góð að leika við mig og leyfa mér að gista hjá þér. Amma... tókst þú Dúllu með? Dúlla getur heitið Dúlla Árnadóttir núna. Elsku amma, ég veit þú ert að hugsa um mig og ég ætla að hugsa um þig. Bæ.

Birta ömmustelpa.

Elsku kæra Dóra.

„Einstakur“ er orð sem notað er þegar lýsa á því sem engu öðru er líkt, faðmlagi eða sólarlagi eða manni sem veitir ástúð með brosi eða vinsemd. „Einstakur“ lýsir fólki sem stjórnast af rödd síns hjarta og hefur í huga hjörtu annarra. „Einstakur“ á við þá sem eru dáðir og dýrmætir og hverra skarð verður aldrei fyllt. „Einstakur“ er orðið sem best lýsir þér.

(Terri Fernandez)

Minning um yndislega konu lifir í hjarta okkar.

Þórdís, James, Selma, Arnar, Sigtryggur, Regína og börn.

Kæra vinkona.

Það er svo stutt síðan við sátum og plönuðum næsta göngutúr, þegar snjóinn tæki upp. En hann verður að bíða betri tíma. Þeir eru ófáir göngutúrarnir sem við erum búnar að fara saman í Hafnarfirði.

Ég hugsa því meira til þín kæra vinkona og rifja upp minningar sem við áttum saman, sérstaklega ferðina sem við skelltum okkur í til Mallorca fyrir fimm árum.

Þú komst mér á óvart á afmælisdaginn minn með ógleymanlegum hætti, afmælisöngurinn leikinn og allt sem því tilheyrði, það gleymist ekki. Ég veit að það verður vel tekið á móti þér, Dóra mín.

Elsku Árni, Silvía og börn, ég sendi ykkur innilegar samúðarkveðjur.

Kveðja frá vinkonu,

Dagný.

Þegar þeir sem eru manni kærir falla frá verða minningarnar allsráðandi. Minningin um góða og trausta vinkonu er efst í huga mínum. En þetta kom of fljótt. Við vissum að veikindin voru erfið, en Dóra var hetja og kvartaði aldrei, var alltaf bjartsýn og lét ekki bugast.

Kynni okkar Dóru hófust þegar við vorum unglingsstúlkur og aldrei bar skugga á. Dóra var glaðvær og félagslynd, hún dansaði, var í sundi, í kvenfélögum og alltaf brosandi.

Ég veit að Dóru verður sárt saknað af öllum. Ég vil þakka henni samfylgdina og votta aðstandendum dýpstu samúð okkar hjóna. Hvíl í friði, kæra vinkona.

Hólmfríður og Viðar.

Með söknuði og þökk er mín hugþekka vinkona Halldóra Árnadóttir kvödd, hún Dóra mín, ein af dálætisnemendum mínum frá fyrstu kennsluárum mínum á Fáskrúðsfirði, mynd hennar og minning mér einkar kær, því vermandi vináttan entist í áranna rás, allt til endadægurs hennar. Minnisstæð nú er stundin góða þegar hún Dóra hélt með rausn og reisn upp á sjötugsafmælið sitt á síðasta ári, brosið hlýja og bjartur hláturinn enn á sínum stað þrátt fyrir vágestinn grimma sem beið færis og Dóra gjörði sér svo glögga grein fyrir. En það var ekki æðrast og nú á nýju ári var hún enn hress í máli og lét bara vel af sér, aðeins væri hún oft þreytt. Og nú er hvíldin fengin frá þreytu og sjúkdómi, það var staðið meðan stætt var og nú er aðeins eftir að sakna og gefa minningamyndunum rúm í hug og hjarta. Mikil og einlæg er þökk mín fyrir kynnin allt frá fyrstu tíð, þessi bjartleita prúða stúlka var sem hugur manns í skóla, átti næmar námsgáfur og einstaka samvizkusemi, henni fylgdi ljómandi lífsgleði og jafnframt sá veituli, vinhlýi þokki sem var hennar aðalsmerki alla tíð. Æviganga hennar var farsæl og hvarvetna kom hún sér vel. Öllu skilaði hún á bezta veg, ljúf en ákveðin, hrein og bein og lagði metnað sinn að hverju því sem hún tók sér fyrir hendur eða eins og ég orðaði það á sjötugsafmæli hennar:

Þú margt hefur fengið um ævina að iðja

og öllu því skilað á ljómandi hátt.

Því lífstrúna góðu með staðfestu að styðja

er stefnumið göfugt er treysta þú mátt.

Þú rösk ert til verka og lundin er létt

og létt ertu á fæti, það veit ég er rétt.

Já, hún Dóra mín hafði unun af tónum og takti, dansinn var m.a. yndi hennar og nú hefur hún lokið sínum ljúfa lífsdansi, síðasti tæri tónninn hefur verið sleginn. Syni hennar og hans fólki svo og öðrum þeim er áttu hana að sendum við Hanna okkar innilegustu samúðarkveðjur um leið og við kveðjum okkar kæru vinkonu þakklátum huga og henni beðið blessunar á hinum ókunna vegi ódauðleikans. Blessuð sé hin birturíka minning yljuð klökkva og kærleika umfram allt.

Helgi Seljan.

Hinsta kveðja

Leiðrétting 13. mars - Hluti undirskriftar féll niður

Í minningargrein um Halldóru Árnadóttur í blaðinu laugardaginn 10. mars féll niður hluti af undirskrift sem átti að vera með einni greininni. Selma, Arnar og börn voru skráð en undirskriftin átti að vera svohljóðandi:

Þórdís, James, Selma, Arnar, Sigtryggur, Regína og börn.

Beðist er velvirðingar á mistökunum. (Búið að lagfæra í grein í gagnasafni.)