Saltfiskur Sölukona heldur á söltuðu þorskflaki og sýnir viðskiptavininum á matvörumarkaði í Barcelona í síðustu viku. Hvert flak eða fiskur er veginn og metinn þegar neytandinn kaupir í matinn.
Saltfiskur Sölukona heldur á söltuðu þorskflaki og sýnir viðskiptavininum á matvörumarkaði í Barcelona í síðustu viku. Hvert flak eða fiskur er veginn og metinn þegar neytandinn kaupir í matinn. — Ljósmynd/Gunnar Tómasson
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Verð á saltfiski hefur lækkað nokkuð frá því sem það var hæst 2008.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Verð á saltfiski hefur lækkað nokkuð frá því sem það var hæst 2008. Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri hjá Þorbirni í Grindavík, segir að ef litið sé yfir lengra tímabil sé verðið eigi að síður hátt og svipað því sem það var hæst áður en vísitölur bólgnuðu og spenna hljóp í alla markaði árin fyrir hrun.

Síðustu ár hefur saltfiskur verið fluttur út frá Íslandi fyrir um 30 milljarða króna og mest til Spánar og Portúgals og annarra landa við Miðjarðarhafið. Efnahagskreppan þar hefur dregið úr eftirspurn á sumum svæðum og hafa menn þurft að laga sig að breyttum aðstæðum. Almennt hefur kaupgeta minnkað og bankar verið tregari til að lána.

Þorbjörn í Grindavík er meðal stærstu saltfiskframleiðenda og segir Gunnar að fyrirtækið hafi haldið sínu striki í framleiðslu á saltfiski. Almennt hafi tilhneigingin hins vegar verið sú að færa sig meira yfir í útflutning á ferskum fiski meðan þetta ástand varir á mörkuðum.

Varðandi Portúgala segir Gunnar að þeir hafi aðeins dregið úr kaupum, en séu að taka við sér að nýju. Mesti sölutími ársins á fiski tengist föstunni, fyrir páska og jól, og á þeim tíma selst stór hluti af saltfiskinum frá Íslandi. Meðan Portúgalar héldu að sér höndum var nokkuð um að framleiðendur beindu vinnslu og sölu á aðra markaði með þeim verðbreytingum sem því fylgdi. Á þennan hátt var hægt að selja fiskinn strax og komast hjá birgðasöfnun.

Skemmtilegt vandamál

Portúgalar hafa keypt mikið af stórum fiski, en vegna sölutregðu þar hefur orðið verðlækkun á honum. Sömuleiðis hefur stór þorskur lækkað í verði á fiskmörkuðum hérlendis og margir reyna að forðast hann í veiðum. Spurður hvort stóri þorskurinn sé að verða vandamál vill Gunnar ekki kannast við slíkt. Það sé þá skemmtilegt vandamál því stór þorskur sé afbragðs hráefni.

Því sé þó ekki að neita að í Portúgal sé kaupgeta almennings minni og fyrirgreiðsla banka hafi síðustu misseri reynst kaupendum erfiðari. Þá hefur mikið af stóra fiskinum verið selt á veitingahúsum bæði í Portúgal og á Spáni og eftir hrunið hafi mörg þeirra dregið saman seglin. Algengt sé að þau hafi nú lokað fyrri hluta viku eða hluta dags

Framleiðendur þurfi stöðugt að hafa hugann við markaðsaðlögun og hvað neytandinn í hverju landi vilji fá á sinn disk. Þannig þurfi að koma meira magni af stærri fiskinum í almenna neyslu.

Gunnar segir að Ítalíumarkaður sé sterkastur á haustin og svo komi gjarnan viðbragð fyrir páska. Á þessu hafi ekki orðið mikil breyting. Grikkir, þar sem efnahagsástand er alvarlegt, hefur komið á óvart að markaðurinn hefur að mestu haldið sínu striki þrátt fyrir nokkra erfiðleika með fyrirgreiðslu banka. Grikkir vilji helst smáan fisk og hefur verið nokkrum annmörkum háð að uppfylla þær kröfur þegar fiskurinn sem veiðist verður sífellt stærri.

Hann segir að Spánn eigi við sömu vandamál að stríða og hin löndin, þ.e. fólk kaupir minna í einu og ódýrari fiskinn. Bankar eru tregir að lána og fyrirtæki hafa lent í vanda. Aftur á móti tekur Spánarmarkaður við nær öllum tegundum af söltuðum afurðum, stórum og smáum fiski, flöttum og flökuðum, af öllum gæðaflokkum.

ÝSA DÝRARI EN ÞORSKUR

Góður afli þegar gefur

Aflabrögð hafa verið góð undanfarið og er nánast sama hvar borið er niður. Gæftir hafa þó verið stirðar síðustu vikur og hafa eðlilega fyrst og fremst bitnað á minni bátunum. Hratt hefur gengið á kvótann undanfarið og margir gagnrýnt takmarkanir í aflamarkskerfinu.

Á fiskmörkuðum í gærdag var meðalverð fyrir kíló af óslægðum þorski 346 krónur, en ýsan seldist á hærra verð og fengust 349 krónur fyrir kíló af óslægðri ýsu.