Guðjón Sigurjón Ólason fæddist í Teigagerði við Reyðarfjörð hinn 27. júní 1923. Hann lést á Uppsölum, Fáskrúðsfirði, 28. febrúar 2012.

Útför Sigurjóns fór fram frá Reyðarfjarðarkirkju 9. mars 2012.

Þær eru margar og góðar minningamyndirnar sem munann sækja heim, þegar Sigurjón, minn kæri sveitungi, er kvaddur hinztu kveðju. Þar fór góður þegn og gegn, knár, traustur og snarrráður, en máske kemur hinn bjarti og glaði hlátur hans allra fyrst upp í hugann, hlátur sem endurspeglaði hans hlýja hjartalag. Við áttum kannski allra mest og bezt saman að sælda í áhugastarfinu hjá Leikfélagi Reyðarfjarðar, það var góður tími kærra kynna og þar sem annars staðar lagði Sigurjón sig allan fram, einkar skýr í máli með ágæta leikræna túlkun, en fyrst og síðast hinn góði félagi sem alltaf var reiðubúinn til allra verka, aldrei hik eða vöflur, bara að gjöra sem bezt það sem að höndum bar, hvort sem var að leika eða sinna öðru því sem þurfti að vinna svo allt gengi upp. Það kallaði á mikla vinnu og fórnfýsi í raun að vera virkur í áhugaleikfélagi en það skilaði líka miklu og var í mörgu þroskandi.

Sigurjón var mikill áhugamaður um þjóðmál sem og málefni síns byggðarlags, þar sem áhugi hans var ætíð sá að gjöra veg Reyðarfjarðar sem mestan, sjálfstæðismaður var hann fram í fingurgóma og gat komið fyrir að við tækjum smásnerru í pólitíkinni, en aldrei svo að við værum ekki báðir jafnsáttir í lokin. Sigurjón var býsna skapmikill en fór vel með, snarpur í orðræðu og hiklaus í framsetningu sinna skoðana, vel heima í samfélagsmálum og fylginn sér, en sanngjarn líka. Um málefnin heima áttum við í flestu samleið og þegar Sigurjón tók að sér sveitarstjórastarfið heima þá var ekki amalegt fyrir skólastjórann að eiga hann að, alltaf tilbúinn til góðra verka í þágu skólans, hafði brennandi áhuga fyrir sem beztri menntun í heimahögum, þess nutum við sem að skólamálum unnum. Sigurjón var kappsamur verkmaður að hverju sem hann gekk, vinsæll vel og vinmargur, honum fylgdi ævinlega ákveðinn röskleiki og ákveðni og hlýjan hug hans fundu allir í viðmótinu, brá gjarnan fyrir sig léttri en græskulausri kímni, einlægni hans var fölskvalaus. Hann var gleðimaður á góðra vina fundi og dansaði eins og herforingi. Farsæl var öll hans æviganga, hann átti afbragðsfjölskyldu ágætrar eiginkonu og efnisríkra barna, sinnti hverju því vel sem honum var til trúað. Hressilegt var síðasta handtakið í haust er leið, traust eins og maðurinn sjálfur, hlýtt eins og hugarfarið.

Ég kveð Sigurjón með miklu og góðu þakklæti fyrir samfylgdina um langan veg og við Hanna sendum Sigríði konu hans, börnum þeirra og öðru hans fólki okkar hlýjustu samúðarkveðjur. Blessuð veri björt minning góðvinar míns, Sigurjóns Ólasonar.

Helgi Seljan.