Slitastjórn Landsbankans hefur tilkynnt sölu á 67% hlutafjáreign Landsbanka Íslands hf.

Slitastjórn Landsbankans hefur tilkynnt sölu á 67% hlutafjáreign Landsbanka Íslands hf. í verslunarkeðjunni Iceland Foods Limited til Oswestry Acquico Limited, sem er félag í eigu yfirstjórnenda Iceland Foods, að meðtöldum forstjóranum Malcolm Walker, og annarra fjárfesta. Söluverðið miðast við að heildarverðmæti Iceland sé 1,55 milljarðar sterlingspunda, jafnvirði um 305 milljarða íslenskra króna. Miðað við þetta skilar salan þrotabúi gamla Landsbankans um 205 milljörðum íslenskra króna.

Félag Walkers og lykilstjórnenda átti fyrir um 23% hlut í Iceland. Fram kemur í frétt Financial Times að samkvæmt samkomulaginu muni hlutur þeirra nema um 42% eftir söluna.

Kaupin eru meðal annars fjármögnuð með forgangsskuldabréfi upp á 860 milljónir punda, sem er gefið út af Nomura, Deutsche Bank, HSBC og Credit Suisse.

hordur@mbl.is