Þorvarður Hrafn Ásgeirsson
Þorvarður Hrafn Ásgeirsson
Eftir Þorvarð Hrafn Ásgeirsson: "Ég vil búa í landi þar sem er ábyrg fjármálastjórn og ríkisstjórn sem ber hag almennings fyrir brjósti. Það er ekki landið sem ég bý í núna."

Nú er kominn tími fyrir okkur Íslendinga að ákveða okkur. Ákveða hvernig við viljum að landinu okkar sé stjórnað. Ákveða hvernig landi við viljum búa í. Ákveða hvort við viljum halda áfram á þeirri leið sem við erum á.

Nýja Ísland, svokallaða, er ekki að virka. Ég tel að eftir hræðilega atburði þessarar viku séum við komin á þann tímapunkt að við verðum að taka okkur saman í andlitinu. Reiðin er of mikil. Fólk leyfir sér að tala um hluti sem það hefur ekki minnsta vit á og hreytir skít í hvern þann sem ekki er sammála. Svona samfélagi vil ég ekki búa í.

Nú er nýbúið viðtal við Þór Saari í Kastljósinu og þar kemur fram að hann hafði ekki hundsvit á því sem var í gangi þegar árásin var gerð á Lagastoðir en hann taldi sig samt í fullum rétti til að skrifa um þessa atburði og kasta sökinni á ríkisstjórn og innheimtufyrirtæki. Ef það er einhver hópur í samfélaginu sem þarf að gæta sinna orða þá eru það alþingismenn. Alþingismenn hafa fullan aðgang að öllum fjölmiðlum landsins og verða því að vera með málefnin á hreinu þegar tekið er til orða, hvað þá þegar um svona hræðilega atburði er að ræða. Það er ekkert sem réttlætir árás á aðra manneskju og það er engin afsökun fyrir því að nota árásina síðan í pólitískum tilgangi.

Ég vil ekki búa á þessu Nýja Íslandi. Ég vil ekki búa í samfélagi þar sem það er talið réttlætanlegt að maður sé stunginn fyrir að vinna lögmæta vinnu sínu. Ég vil ekki búa í samfélagi þar sem nokkrir reiðir og miður gáfaðir einstaklingar fá aðgang að fjölmiðlum til þess eins að vekja reiði og vera með skítkast. Ég vil búa í landi þar sem lög gilda og þar sem sanngirni ræður ríkjum. Það er ekki landið sem ég bý í núna.

Við Íslendingar erum ekki fórnarlömb. Við fórum öll of geyst, sumir meira en aðrir. Ég hef ekki ennþá heyrt í neinum sem tekur ábyrgð á sínum eigin gjörðum. Það eina sem ég hef heyrt er fólk sem kennir öllum öðrum um, hvort sem það eru lánastofnanir, ríkisstjórnir eða valdir menn úr viðskiptalífinu. Það neyddi okkur enginn til að taka 100% lán fyrir íbúð og jeppa á erlendu gengi. Ef fólk hinsvegar ákvað að vera „skynsamt“ og taka 100% lán fyrir íbúð og jeppa á verðtryggðu íslensku láni þá er það ríkisstjórninni og hinum sem tóku gengistryggðu lánin að kenna. Það er ekkert okkur að kenna. Það neyddi okkur enginn til að fara með alla fjölskylduna til útlanda nokkrum sinnum á ári eða skreppa með stelpunum til London að versla. Þetta hrun er okkur öllum að kenna og við verðum að taka ábyrgð á því, hvert og eitt. Það er enginn einn maður sem ber ábyrgð á öllu.

Ég vil búa í landi þar sem er ábyrg fjármálastjórn og ríkisstjórn sem ber hag almennings fyrir brjósti. Það er ekki landið sem ég bý í núna. Ég vil búa í landi þar sem fólk inni á Alþingi vinnur saman að góðum málefnum og hefur vitsmuni til þess. Það er ekki landið sem ég bý í núna. Einu sinni var ég stoltur yfir því að vera Íslendingur. Þetta er ekki tilfinning sem ég finn fyrir þegar ég hugsa um landið mitt í dag.

Höfundur er nemi í sagnfræði við Háskóla Íslands.