Adda Bára Sigfúsdóttir
Adda Bára Sigfúsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á aðalfundi Hins íslenska náttúrufræðifélags (HÍN) sem haldinn var laugardaginn 25. febrúar síðastliðinn voru kjörnir tveir heiðursfélagar – þær Adda Bára Sigfúsdóttir veðurfræðingur og Margrét Guðnadóttir, læknir og veirufræðingur.

Á aðalfundi Hins íslenska náttúrufræðifélags (HÍN) sem haldinn var laugardaginn 25. febrúar síðastliðinn voru kjörnir tveir heiðursfélagar – þær Adda Bára Sigfúsdóttir veðurfræðingur og Margrét Guðnadóttir, læknir og veirufræðingur.

Heiðursfélagi HÍN er sæmdarheiti sem aðeins hlotnast mönnum sem leyst hafa af hendi sérlega mikilsverð störf til eflingar félaginu eða náð frábærum árangri á sviði rannsókna eða kennslu í náttúrufræðum, segir í frétt frá félaginu.

Brautryðjendur á sínu sviði

Adda Bára Sigfúsdóttir var kjörin heiðursfélagi fyrir ötult starf að rannsóknum á veðurfari Íslands og baráttu fyrir jafnrétti kvenna og karla í stétt náttúrufræðinga. Margrét Guðnadóttir var kjörin heiðursfélagi fyrir brautryðjandastarf að rannsóknum í veirufræði, sem og vegna framlags við miðlun upplýsinga um hæggenga veirusjúkdóma í búfé og þróun bóluefnis gegn slíkum sjúkdómum.

Heiðursfélögunum var afhent skrautritað heiðursfélagaskjal ásamt gullmerki félagsins og blómvendi.

Adda Bára tók við viðurkenningunni úr hendi formanns HÍN, Árna Hjartarsonar, og varaformannsins Estherar Ruthar Guðmundsdóttur. Guðni Franzson, sonur Margrétar Guðnadóttur, tók við viðurkenningunni í fjarveru móður sinnar sem stödd var erlendis.

Tvær konur útnefndar áður

Aðeins tvær konur hafa áður hlotið sæmdarheiti félagsins. Það voru Laufey Friðriksdóttir Oberman, náttúruverndari og landstjórafrú á Súmötru með meiru, sem kosin var kjörfélagi árið 1929, og Teresía Guðmundsson, veðurfræðingur og veðurstofustjóri, sem kjörin var heiðursfélagi árið 1978.