Gunnlaugur Briem Pálsson vélaverkfræðingur fæddist í Reykjavík 19. júní 1932. Hann andaðist á heimili sínu 2. mars 2012.

Útför Gunnlaugs fór fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík 9. mars 2012.

Pabbi sagði að það hefði alltaf verið gott að vinna með Gunnlaugi í þeim verkefnum sem þeir voru að bardúsa í saman. Hann hefði kynnt sér málin ofan í kjölinn áður en ákvörðun var tekin en þegar búið var að marka stefnu var framkvæmdin hiklaus.

Í Goðdal var af nógu að taka og verkefnin mörg í gegnum árin og þar hefur verið ákaflega gott að vinna með honum. Drifið í hlutunum en líka tekinn tími til að slaka á eftir gott dagsverk.

Hann var hlýr og skemmtilegur maður sem gaman var að umgangast og þægilegt að ræða við enda með góðan húmor og átti auðvelt með að sjá spaugilegu hliðina á hlutunum.

Við systkinin áttum greiðan aðgang í Bröttubrekkunni og var alltaf tekið vel á móti okkur. Það var alltaf óskaplega gott að koma þangað og mjög notalegt. Inga og Gulli voru rausnarleg og höfðingjar heim að sækja. Það sama á við um börn þeirra og hafa samskipti okkar frændsystkinanna verið góð.

Eitt var það sem frændi átti sem okkur bræðrum þótti merkilegra en allt annað en það var Bronco. Pabbi átti Scout en hann þótti okkur ekki hálfdrættingur á við Broncoinn og sáum við það alltaf í hillingum að eignast slíkan kjörgrip einhvern daginn.

Það sem eftir stendur er minning um heiðursmann sem gaman var að umgangast. Hann var frumkvöðull, duglegur og vinnusamur án þess að gleyma því sem skiptir máli í lífinu og fannst okkur hann gæta þess að njóta lífsins með Ingu sinni og börnum og barnabörnum.

Magnús Gústafsson, Björn Magnússon, Einar Gústafsson, Jórunn Magnúsdóttir.