[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Veiðigjald, nýtingartími, endurnýjunarákvæði og magn sjávarfangs í sérstaka potta gætu orðið á matseðli þjóðmálaumræðunnar á næstunni. Búist er við að Steingrímur J.

Fréttaskýring

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Veiðigjald, nýtingartími, endurnýjunarákvæði og magn sjávarfangs í sérstaka potta gætu orðið á matseðli þjóðmálaumræðunnar á næstunni. Búist er við að Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegsráðherra, leggi fyrir ríkisstjórn í dag frumvarp um stjórn fiskveiða. Það yrði þá fjórða frumvarpið um þetta efni af hálfu stjórnvalda á kjörtímabilinu.

Veiðigjald af reiknaðri framlegð útgerðarinnar var fyrst greitt vegna fiskveiðiársins 2004/05 og nam þá um 877 milljónum króna. Veiðigjaldið átti að hækka í áföngum, en vegna niðurskurðar á aflaheimildum í þorski lækkaði það 2007/08 og 2008/09. Síðustu tvö fiskveiðiár var það að fullu komið til framkvæmda samkvæmt þágildandi lögum og var miðað við 9,5% af framlegð og gjaldið nam 2,5 og 2,9 milljörðum þessi ár.

Með samþykkt á litla frumvarpinu svokallaða um stjórn fiskveiða, sem varð að lögum síðasta sumar, var gjaldið hækkað um 40% og er nú 13,3%. Áætlanir gera ráð fyrir að útgerðin greiði 4,5 milljarða í veiðigjald fyrir þetta fiskveiðiár. Í frumvarpinu var reyndar upphaflega gert ráð fyrir 70% hækkun veiðigjalds en í meðförum þingsins lækkaði þetta viðmið.

Hækkanir í fjárlögum.

Hins vegar er að finna í fjárlögum þessa árs áform um frekari hækkun gjalds á fiskiveiðiheimildir eða um það bil tvöföldun þess gjalds sem lögfest var í júní 2011. Þannig er ráðgert að veiðigjaldið fari í um 27% af framlegð frá og með næsta fiskveiðiári, sem hefst 1. september.

Tekjuáhrif þeirrar breytingar eru áætluð 4,5 milljarðar kr. á ársgrundvelli og koma heilsársáhrif ekki fram fyrr en á árinu 2013. Áhrifin á árinu 2012 eru metin á 1,5 milljarða kr. Verði þessi áform að veruleika og aðrar aðstæður breytist ekki gæti veiðigjaldið gefið ríkissjóði um níu milljarða á næsta ári. Hins vegar er eftir að gera breytingar á lögum um stjórn fiskveiða áður en þetta ákvæði kemur til framkvæmda.

Geta dregið úr þrótti

Á heimasíðu LÍÚ var í gær fjallað um nýja frumvarpið og vitnað til frétta Ríkisútvarpsins um málið. Á heimasíðunni segir: „Greint var frá því að samkvæmt heimildum væru uppi hugmyndir um þreföldun veiðigjalds, úr 13,3% í allt að 40%. Þá væri gert ráð fyrir að stór hluti aflaheimilda yrði tekinn af útgerðarmönnum og þeim úthlutað í leigu- eða byggðapotta. Reynist efnisatriði fréttar RÚV rétt er ljóst að gríðarlega þungar álögur verða lagðar á sjávarbyggðir landsins og útgerðarfyrirtækin í heild. Verði skattar of háir er ljóst að þeir geta dregið úr þrótti fyrirtækja til fjárfestinga og framþróunar sem á endanum leiðir til minni tekna í ríkissjóð.“

LÖGIN Á AÐ ENDURSKOÐA Í HEILDT

Hluti af stjórnarsáttmálanum

» Í samstarfsyfirlýsingu Samfylkingar og Vinstri grænna í maí 2009 er kveðið á um að lög um stjórn fiskveiða verði endurskoðuð í heild.

» Í júlí 2009 skipaði sjávarútvegsráðherra starfshóp og átti hann að skila af sér fyrir 1. nóvember 2009, en raunin varð september 2010.

» Tvö frumvörp komu frá ríkisstjórn til Alþingis í maí í fyrra.

» Minna frumvarpið var samþykkt, en heildstætt frumvarp var ekki afgreitt frá Alþingi. Það hafði fengið mikla gagnrýni og falleinkunn víða.

» Í lok nóvember sl. var fullbúið frumvarp, kallað vinnuskjal, kynnt í ríkisstjórn. Það var unnið af starfshópi ráðherra og fór ekki lengra.