Baldur Ágústsson
Baldur Ágústsson
Eftir Baldur Ágústsson: "Til forseta þarf að veljast einstaklingur með hlýtt hjarta, sterka réttlætiskennd og bein í nefinu; sannur þjóðhöfðingi í þess orðs bestu merkingu."

Stífudansi Ólafs Ragnars Grímssonar við fréttamenn og þjóðina er lokið – í bili. Þessi dans hefur ekki verið forseta vorum til sóma. Hann segir nú að það hafi verið skýrt í áramótaávarpi sínu að hann hygðist aðeins sitja út þetta kjörtímabil. Nú sé hann hinsvegar tilbúinn að breyta þeirri ákvörðun og þar með þeim áformum sem hann hafi gert með fjölskyldu sinni.

Frekur til fjörsins

Undirritaður hlýddi að sjálfsögðu á ávarp forsetans um áramót og hefur síðan lesið það á vefsíðu forsetaembættisins. Í því kemur fram að þau hjónin „ hlakka til frjálsari stunda“ og hafa eignast „ fallegt hús í trjálundi við litla á“ . Einnig að hann hefur velt því fyrir sér að hann „geti fremur orðið að liði ef val á verkefnum verður eingöngu háð mínum eigin vilja, óbundið af þeim skorðum sem embætti forsetans setur jafnan orðum og athöfnum“ . Ekki verður lesið úr þessum orðum Ólafs að hann hafi ákveðið að gefa ekki kost á sér í sumar. Hinsvegar skal ekki deilt við forseta um þessa skoðun hans og tilfinningar. Þvert á móti er ástæða til að samgleðjast hverjum þeim sem á sér von og tilhlökkun.

Margir telja að Ólafur hafi, á ferli sínum sem forseti lýðveldisins, farið út fyrir allar skorður og velsæmi. Hinsvegar ber á það að líta að fáar, ef nokkrar, reglur eru til um hvernig forseti skuli haga sér. Lög hefur hann þó að sjálfsögðu ekki brotið. Ráðherra utanríkismála – sem eitt sinn var – orðaði það svo að „forseti væri frekur til fjörsins“. Látum þar við sitja.

Ólafur Ragnar hefur gott vald á íslensku máli svo að til sóma er. Því auðveldara hefði honum verið að taka afdráttarlaust til orða í áramótaávarpi sínu, t.d.: Ég hef því ákveðið að gefa ekki kost á mér er kjörtímabilinu lýkur á sumri komanda. Það gerði hann hinsvegar ekki. Öllum spurningum fréttamanna um hvort hann hygðist gefa kost á sér áfram vékst hann undan að svara – í tvo mánuði!

Í sjónvarpsviðtali á þrettándanum spurði fréttamaður á Bessastöðum: „ Sérðu fyrir þér að þú munir vera með marga svona viðburði hér á Bessastöðum í haust?“ Forseti svaraði: „ ...ég ætla nú ekki að fara að svara svona dulbúnum spurningum“.

Ef ákvörðun um að hætta lá raunverulega fyrir um áramót hefði þarna verið eðlilegt að staðfesta hana – en það kaus forseti að gera ekki.

Umdeildur

Þær vinsældir og virðing sem Ólafur Ragnar og forsetaembættið glataði með dekri hans við fjárglæframenn, náði hann að endurheimta að hluta er hann, tvisvar sinnum, beitti 26. grein stjórnarskrárinnar í Icesave-málinu. Hins vegar glataði hann persónulegum vinsældum og fylgi með framkomu sinni þegar hann, í tvo mánuði, lét þjóðina velkjast í vafa um ákvörðun sína. Þar varð hann uppvís að refskák áþekkri þeirri sem þjóðin hefur fengið meira en nóg af frá stjórnvöldum undanfarin ár – fólkinu sem lofaði að slá skjaldborg um heimilin og láta hjól atvinnulífsins fara að snúast.

Á heildina litið hefur Ólafur verið umdeildur forseti; fólk annaðhvort sér ekki sólina fyrir honum eða mælir gegn honum og segir gjarnan: Ólafur verður aldrei minn forseti.

Ólafur Ragnar hefur nú tilkynnt að hann gefi kost á sér til áframhaldandi setu á Bessastöðum. Hann telur að óæskilegt tómarúm muni skapast við ríkjandi aðstæður í málum þjóðarinnar ef hann hverfur nú af forsetastóli. Ólafur nefnir í því sambandi stjórnarskrármálið og framtíð forsetaembættisins.

Andstæðingar Ólafs segja hann upphefja sjálfan sig og ýkja stórlega mikilvægi sitt. Fjöldi fólks telur hann hafa setið meira en nógu lengi – margir alltof lengi.

Sannur þjóðhöfðingi

Okkur Íslendingum er nauðsynlegt – nú sem aldrei fyrr – að hafa á Bessatöðum styrkan og heiðarlegan forseta sem ann þjóð sinni, menningu og landi. Forseta sem af heilindum beitir þeim ráðum og áhrifum sem forseti einn kann að hafa á ögurstundu til að tryggja þjóðinni frelsi og óskorað eignarhald á landinu og auðlindum þess. Það er forsenda þeirrar lífshamingju og öryggis sem við, þrátt fyrir allt, höfum átt og viljum eiga. Þjóðin þarf að finna að forsetinn er hennar allrar, óháður stjórnmála- og hagsmunaöflum. Til forseta þarf að veljast einstaklingur með hlýtt hjarta, sterka réttlætiskennd og bein í nefinu – svo notað sé íslenskt orðtak; sannur þjóðhöfðingi í þess orðs bestu merkingu.

Höf. er fv. forstjóri og forsetaframbjóðandi. baldur@landsmenn.is

Höf.: Baldur Ágústsson