Tryggvi V. Líndal
Tryggvi V. Líndal
Eftir Tryggva V. Líndal: "Ég sé fyrir mér að kalla mætti mig til; á tímakaupi, með hæfilegum fyrirvara til að ég geti fengið frí frá minni launavinnu; til að flengjast með forsetanum um allar jarðir sem hans setta hirðskáld, til að lesa upp úr ljóðum mínum..."

Nú, þegar stefnir í óvissu um hver næsti Forseti Íslands verður, þykir mér lag að koma fram með þá tillögu, að sá næsti velji sér nokkurs konar lárviðarskáld til að hafa með sér í för: Til að árétta þá heimsmynd sem við Íslendingar þurfum að varðveita í hugum okkar, þar sem sjálfstæði og söguskyn haldast á við varðveislu bókmennta, lista og tilfinningu fyrir náttúru þjóðsagnaarfsins. Þetta var um margt áhersla hjá okkar næstsíðasta forseta, en sá sem nú situr hefur ekki haft geð í sér til að vera að þylja ljóð á almannafæri; hvað þá að biðla til álfa; viljað heldur vera í forystu fyrir breytingaröflum, svo sem meiri viðskiptum við Evrópusambandið, Kína og Indland. Þar skal lóð lagt á útrásarvogina og innrásarvogina svo lengi sem landsmenn þola.

Raunar tel ég að farsælt hefði verið ef núverandi forseti og sá síðasti hefðu haft sveigjanleika í sér til að sameina báðar þessar áherslur, þannig að Vigdís hefði getað orðið nokkurs konar lárviðarskáld Ólafs Ragnars Grímssonar.

En í ljósi þess að svo varð ekki, þarf einhver að taka af skarið og bjóða sig fram sem slíka varaskeifu. Ég sé fyrir mér að kalla mætti mig til; á tímakaupi, með hæfilegum fyrirvara til að ég geti fengið frí frá minni launavinnu; til að flengjast með forsetanum um allar jarðir sem hans setta hirðskáld, til að lesa upp úr ljóðum mínum, og halda stuttar tölur um hvað ég héldi að horfði til stöðugleika í framtíðinni. Kjarninn í mínum boðskap myndi verða þessi:

Við stöndum og föllum með vilja okkar til að vera áfram minnsta sjálfstæða menningarríkið í hinum vestræna heimi; og þar með um leið minnsta vestræna velferðarríkið í hinum ríka hluta heimsins. Því skiptir meiru að við varðveitum sjálfstæði okkar síðustu áratuga með því að beina sjónum okkar að þeim okkar sem sitja eftir heima en þeim sem kjósa að flytja burt, af því þeim líkar ekki lengur við landið eins og það er. Um leið eigum við að reyna að aðlaga sem best þá innflytjendur sem kunna að koma annars staðar frá, að okkar íhaldssömu sögu og tungu og bókmenntum; svo fremi sem þeir hyggjast verða áfram á landinu.

Er varðar tæknilegar framfarir og auðsæld vil ég benda á að við höfum þegar ríflega það sem þurfti til að komast af fyrir mannsaldri síðan, og að bakslag í lífskjörum á stundum getur verið það sem sú tilraun til að vera minnsta sjálfstæða vestræna þjóðin í heimi útheimti á stundum. Það má jafnvel vera að slíkur forgangur komi niður á menntun, langlífi og jafnræði meira en verið hefur, en við verðum að horfa til fortíðar í þeim efnum frekar en til framtíðar. Við getum haft fyrir reglu að stefna að ástandinu eins og það var um síðustu aldamót, árið 2000.

Er varðar bókmenntirnar, getum við auðgað Íslendingasagnaarfinn fyrir okkur með því að tengja hann meira við hina fornu borgmenningu Evrópu frá Forn-Grikkjum til nútímans, og með því að leggja aftur áherslu á ljóða- og kvæðamenninguna eins og hún var hér á 20. öld. Og tengja má þetta betur við trúmálin með því að leiða hugann að því sem ásatrúarmenn og þeirra forverar í Evrópusögunni hafa sótt til náttúrunnar og náttúruvætta.

Raunar tel ég að fyrirmynd mín að Lárviðarskáldum sé að láta á sjá, að því leyti að bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum eru þau ekki lengur skipuð ævilangt, heldur bara til ákveðins tíma í senn. Árangurinn verður að vísu lýðræðislegri, en um leið verða handhafarnir minna áberandi, með þeim afleiðingum að þar fer forgörðum helsta tækifæri nútímaríkja til að byggja upp minningu fleiri einstaklinga til framtíðar; sem þjóðskáld.

En ég slæ þessu nú fram, í trausti þess að áratugalöng blaðaskrif mín með greinum og ljóðum skipi mér hér á stall sem henti hvað best fyrir slíkt Lárviðarskáld Forseta Íslands.

Að venju vil ég hér ljúka máli mínu á ljóði úr eigin ranni. Er það úr tíundu frumsömdu ljóðabók minni, Ævintýraljóðum, er út kom árið 2010. Heitir það: Goðsaga um Ísland. Að vísu geng ég þar út frá grískri goðsögu, og treysti ég á að félagar mínir í Ásatrúarfélaginu virði nú vel þá sérvisku mína:

Þá er Ólympsbræður þrír / þráttuðust í valdastý / þótti þeim sem eyjan Thule/ þegi væri fráleitt búleg.

Póseidon sér hana vildi hafa / enda ljóst sem fax á báru hafið. / Seifi fannst að sökum hennar vinda / stöðugu, þá himnesk væri kindar.

Hades gerðist hógværlega djarfur:/ hæfilegt þar sálir yrðu arfur. / Niðurstaða þæfinga varð þessi: / Þetta í lög nú Alfaðirinn setti:

Seifur skyldi fugla himins hljóta, / Póseidon nú sjávarfangs fá njóta, / en myrkur Hades sálirnar þó mega / mannanna er síðar kæmu, eiga.

Höfundur er skáld og mannfræðingur.

Höf.: Tryggva V. Líndal