Með fjölskyldunni Valgerður Sverrisdóttir fagnar afmælinu á Lómatjörn. Þar mun hún njóta dagsins með fjölskyldunni.
Með fjölskyldunni Valgerður Sverrisdóttir fagnar afmælinu á Lómatjörn. Þar mun hún njóta dagsins með fjölskyldunni. — Morgunblaðið/Golli
Valgerður Sverrisdóttir, bóndi á Lómatjörn í Grýtubakkahverfi og fyrrverandi alþingismaður, er 62 ára í dag. Hún ætlar að halda daginn hátíðlegan með fjölskyldunni. „Auðvitað gerir maður sér dagamun.

Valgerður Sverrisdóttir, bóndi á Lómatjörn í Grýtubakkahverfi og fyrrverandi alþingismaður, er 62 ára í dag. Hún ætlar að halda daginn hátíðlegan með fjölskyldunni. „Auðvitað gerir maður sér dagamun. Eiginmaðurinn, yngsta dóttir mín og kærasti hennar ætla að elda fyrir mig ljúffengan kvöldverð. Það eitt og sér að sleppa við að standa yfir pottunum er nóg ástæða til að hlakka til,“ segir Valgerður.

Hún er fædd og uppalin á Lómatjörn í Grýtubakkahverfi og hefur alltaf búið þar, þrátt fyrir setu á Alþingi í Reykjavík. Valgerður hætti þingstörfum árið 2009 en hefur ennþá nóg á sinni könnu. „Ásamt því að vera með búskap er ég formaður samstarfsráðs um þróunarsamvinnu sem er á vegum utanríkisráðuneytis. Ég er líka formaður félags eldri borgara í sveitarfélaginu mínu, þótt mörgum finnist það fyndið.“ Þá vinnur hún að svokölluðu Garðarshólmaverkefni á Húsavík sem felst í því að byggja þekkingar- og menningarsetur á sjálfbærri þróun.

Valgerður segir fyrst og fremst mikilvægt að njóta samverustunda með fjölskyldunni og vera dugleg að gera eitthvað ánægjulegt. „Ég varð amma fyrir stuttu og á von á öðru barnabarni fljótlega. Ég nýt mín til að mynda vel í því skemmtilega hlutverki.“