Hestafólk Inga Sóley Jónsdóttir og Ólafur Magnússon búa með hesta og sauðfé á Sveinsstöðum. Ólafur segir að þetta tvennt fari ágætlega saman.
Hestafólk Inga Sóley Jónsdóttir og Ólafur Magnússon búa með hesta og sauðfé á Sveinsstöðum. Ólafur segir að þetta tvennt fari ágætlega saman. — Morgunblaðið/Jón Sigurðsson
Helgi Bjarnason helgi@mbl.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Þetta var hörkukeppni, góð hross og gaman að vera með,“ segir Ólafur Magnússon, bóndi og tamningamaður á Sveinsstöðum í Austur-Húnavatnssýslu, sigurvegari í töltkeppni Meistaradeildar Norðurlands – KS-deildarinnar. Með sigrinum komst Ólafur upp í þriðja sætið í stigakeppni knapa í deildinni.

Ólafur reið Gáska frá Sveinsstöðum en þeir hafa áður unnið í töltkeppni KS-deildarinnar og verið ofarlega á ýmsum mótum. Gáski er 14 vetra, fæddur Magnúsi Ólafssyni, föður Ólafs, en Ólafur hefur tamið hestinn og keppt á honum.

Ólafur segir að Gáski sé enn hans aðalkeppnishestur. „Það er erfitt að finna einhvern til að taka við. Það er alltaf eitthvað ungt að koma upp en oft á tíðum er það selt áður en það verður nógu gott og svo er alltaf eitthvað sem kannski er ekki nógu gott. Það er allur gangur á því,“ segir Ólafur.

Spilar vel saman

Ólafur og kona hans, Inga Sóley Jónsdóttir frá Akureyri, tóku við búskap á Sveinsstöðum fyrir sjö árum. Þau byggðu upp tamningastöð og lögðu þá þegar nokkra áherslu á hana en eru einnig með sauðfjárbú. „Þetta hefur gengið mjög vel og spilar vel saman,“ segir Ólafur.

Hann segir að nóg sé að gera í tamningum. „Við temjum mest fyrir aðra enda erum við ekki með nógu mikla ræktun til að geta einbeitt okkur að eigin hrossum.“

Tekur Ólafur undir þau orð að frekar rólegt sé yfir hrossamarkaðnum, sérstaklega innanlands. Hins vegar fari alltaf eitt og eitt hross til útflutnings. „Það sem er gott selst alltaf. Svo verður maður alltaf að halda áfram að temja. Eitthvað verður að gera við þau hross sem til eru, þau seljast ekki á meðan þau eru úti á túni að éta gras. Vonandi fer eitthvað að lifna yfir þessu með vorinu og landsmótinu í sumar,“ segir Ólafur.

Mörg stig í boði

Ólafur setur stefnuna á Landsmót hestamanna í Reykjavík og Íslandsmót í hestaíþróttum. Hann vill ekki tilgreina nein markmið, taka verði hvern dag fyrir og sjá hvernig formið verður. „Ég er með frekar ung hross núna og það á eftir að koma í ljós hvernig spilast úr þeim efnivið.“

En fyrst ætlar hann að einbeita sér að lokamótinu í KS-deildinni. Það verður í reiðhöllinni Svaðastöðum, eins og önnur mót meistaradeildarinnar, 4. apríl. Keppt verður í slaktaumatölti og skeiði. Ólafur gerir sér vonir um árangur í slaktaumatöltinu og reiknar frekar með að Gáski muni halda uppi heiðri Sveinsstaða þar. „Þetta verður spennandi. Það eru mörg stigi í boði á þessu móti,“ segir hann.

HÖRÐ KEPPNI Í KS-DEILD

Bjarni er efstur knapa

Bjarni Jónasson er efstur í stigakeppni knapa í Meistaradeild Norðurlands – KS-deildinni. Hann varð annar á Roða frá Garði í töltkeppninni í fyrrakvöld.

Sölvi Sigurðsson og Glaður frá Grund urðu í þriðja sæti og Sölvi er jafnframt í þriðja sæti stigakeppninnar fyrir lokamótið sem haldið verður 4. apríl.

„Þessi keppni er frábært framtak og vel að henni staðið. Gaman að taka þátt,“ segir sigurvegari kvöldsins, Ólafur Magnússon.