Angist Fjölskyldufaðirinn Frank glímir við heilaæxli.
Angist Fjölskyldufaðirinn Frank glímir við heilaæxli.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjórn: Andreas Dresen. Handrit: Andreas Dresen. Aðalhlutverk: Steffi Kühnert og Milan Peschel. 95 mín. Þýskaland, 2011.

Þýsk kvikmyndahátíð stendur nú yfir í Bíó Paradís og kennir þar ýmissa grasa. Þar á meðal er myndin Milli vita sem frumsýnd var á kvikmyndahátíðinni í Cannes á síðastliðnu ári. Myndin segir frá Frank (Milan Peschel), fjölskylduföður sem greinist með heilaæxli. Við tekur erfið barátta sem reynir bæði á Frank og eiginkonu hans, Simone (Steffi Kühnert). Myndatakan er afar hæg og flest skot hennar fá að njóta sín í talsverða stund á skjánum. Frásögnin er mjög raunsæ og er myndin hvorki saga hetjudáða né kraftaverka. Í hvert sinn sem köldum söguþræðinum er gefið lítið bros er honum kippt aftur niður á jörðina með ælu, niðurgangi eða öðrum fylgikvillum heilaæxlis. Ófegraður raunveruleikinn verður hálf niðurdrepandi og fær áhorfandann til að sökkva með niður í þunglyndi fjölskyldunnar sem á í hlut.

Myndin er afar sannfærandi og skemmtilegum aðferðum beitt til að fanga angist Franks. Til að mynda persónugerir hann heilaæxli sitt auk þess sem hann heldur úti myndbandsdagbók sem gefur myndinni heimildarmyndalegan blæ. Að því undanskildu er hún fremur hefðbundin í frásagnarformi. Persónur myndarinnar eru mjög sannfærandi og leikur mjög góður. Það er ótrúlegt hvað lítið aukahlutverk getur gefið mynd aukið gildi en sú var raunin með föður Franks, Ernst Lange (Otto Mellies). Gamansöm jafnt sem angurvær innkoma hans var gulls ígildi. Þó svo myndin sé mjög langt frá því að vera upplífgandi þá situr hún fast eftir í huga undirritaðs að loknu áhorfi.

Davíð Már Stefánsson