Martin Petersen fæddist í Reykjavík 9. júlí 1925. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 16. mars sl.

Foreldrar hans voru Sólveig Árnadóttir og Karl Petersen kaupmaður.

Eiginkona Martins er Kristín Sigurðardóttur. Börn þeirra eru; Ragnar, f. 17. ágúst 1953. Karl, f. 6. júlí 1960, d. 2. apríl 2006, Kristín, f. 31. júlí 1965. Martin ólst upp í foreldrahúsum á Sólvallagötu í Reykjavík. Eftir lát föður síns flutti hann ásamt móður sinni til móðurforeldra sinna á Ísafirði. Að skólagöngu lokinni í Landakotsskóla og Gagnfræðaskóla Ísafjarðar fór Martin til New York þar sem hann stundaði nám. Að því loknu starfaði hann hjá Loftleiðum og síðar Flugleiðum í 35 ár, síðast sem markaðsstjóri. Síðar rak hann eigið fyrirtæki og vann sem leiðsögumaður.

Jarðarför Martins fer fram frá Langholtskirkju í dag, 23. mars 2012, kl. 13.

Góður vinur, mágur og svili, hefur kvatt.

Við áttum margar góðar samverustundir; fórum í gönguferðir saman, á gönguskíði, spiluðum badminton, borðuðum saman, spjölluðum og spiluðum bridds, hittumst í fjölskyldubústaðnum á Þingvöllum og áttum þar góðar stundir. Börnin okkar voru alltaf með og milli þeirra var góð vinátta.

Þegar veikindin urðu þyngri og hann þurfti umönnun og aðstoð reyndist kona hans, Kristín, honum stoð og stytta, hún var eins og klettur við hlið hans.

Það er erfitt að missa ástvin, en gott að dvelja við góðar minningar.

Við þökkum Martin góða samfylgd og vináttu og vottum fjölskyldu hans dýpstu samúð.

Ragna og Aðalsteinn.

Martin Petersen var eiginmaður Kristínar móðursystur minnar. Kristín var ein af fallegustu konum Reykjavíkur, sem ung kona, og ég man að sem barni fannst mér Martin vera nokkuð fullorðinn fyrir hana, heilum níu árum eldri. Martin var kletturinn í fjölskyldunni, hann sá vel um sig og sína. Móðir hans bjó hjá þeim hjónum alla tíð en Karl faðir Martins lést ungur, drukknaði, en hann hafði verið sem þýskur ríkisborgari fluttur til Bretlands í fangabúðir á stríðsárunum. Martin var unglingur á þeim tíma og varð vitni að handtökunni. Var það mikið áfall fyrir ungan dreng og móður hans að missa föður og eiginmann á þennan hátt.

Ég verð ævinlega þakklát Martin og þeim hjónum fyrir að hafa tekið mig inn á heimili sitt þegar ég flutti að heiman tæpra 18 ára gömul, eftir að hafa búið um þriggja ára skeið í Bandaríkjunum ásamt móður minni, stjúpföður og systkinum. Á þeim tíma var Martin einn af stjórnendum Loftleiða og mikils virtur meðal sinna yfirmanna og samstarfsmanna enda mjög hæfur í sínu starfi, talaði reiprennandi þýsku og ensku, var hæfur samningamaður og stjórnandi. Starfsfólkið bar ómælda virðingu fyrir honum. Ég hafði fengið starf á skrifstofu Loftleiða en á þeim tíma óx fyrirtækið ört og vantaði starfsmenn, skrifstofan nýflutt í nýbyggingu á Reykjavíkurflugvelli. Ég fékk því far með Martin í vinnuna á morgnana, þegar hann var ekki á ferðalögum erlendis, með viðkomu á leikskólanum Grænuborg þar sem Karl heitinn, sonur hans, var í hálfs dags dvöl.

Ég minnist þess hvað mér þótti skemmtilegt og skondið að fylgjast með þeim feðgum ganga inn í leikskólann, hönd í hönd, alveg sama göngulagið hjá báðum þrátt fyrir aldursmun. Kalli var eins og smærri útgáfa af föður sínum. Hann lést langt um aldur fram fyrir sex árum eftir árslanga baráttu við illvígan sjúkdóm og var fjölskyldunni allri mikill harmdauði.

Ég á margar fallegar minningar um Martin, bæði frá þessu ári sem ég bjó hjá þeim hjónum í Safamýri 49 og einnig öllum árunum á eftir, enda samgangur ávallt mikill milli móðursystra minna og fjölskyldna þeirra. Martin var vel liðinn af öllum níu systkinum Kristínar og þeirra fjölskyldum, öllum þótti vænt um hann. Hann var þessi fasti klettur í tilveru okkar, sem tengdust honum fjölskylduböndum, alltaf rólegur, yfirvegaður og góðhjartaður. Þótt hann hafi oft verið alvarlegur á svip var hann bæði kátur og glettinn í góðra vina hópi, hafði góðan húmor. Hann var víðlesinn og afar vel að sér, fylgdist vel með erlendum fréttum bæði í sjónvarpi og hafði fasta áskrift af erlendum fréttatímaritum. Hann hafði gaman af að ræða heimsmálin alveg fram undir það síðasta og hafði mjög ákveðnar skoðanir á því sem var að gerast bæði hér heima og erlendis. Martin var vinur vina sinna. Hans verður sárt saknað af fjölskyldu og vinum.

Guð blessi minningu Martins Petersen. Ég þakka honum samfylgdina og þá góðsemi og umhyggju sem hann hefur ávallt sýnt mér og minni fjölskyldu. Fjölskyldu hans votta ég innilega samúð mína.

Lára Kjartansdóttir.

Þegar litið er yfir farinn veg standa eftir minningar um þá menn og málefni sem stóðu nærri í lífinu hverju sinni. Þannig er því farið þegar kvaddur er Martin Petersen einn af framkvæmdastjórum Loftleiða hf. Martin var hógvær, vandaður og vel gerður maður, lét lítið fyrir sér fara, en vissi og þekkti því fleira.

Kynni okkar Martins hófust eftir að ég hafði lokið tilskildu umsóknarferli hjá Loftleiðum. Það var árið 1962. Mér var vísað til skrifstofu hans. Þar sat hann við gljáfægt skrifborðið, snyrtilega klæddur sem ávallt og bauð mig velkominn til starfa hjá fyrirtækinu. Hann átti eftir að vera yfirmaður minn næstu 20 árin.

Martin rétti mér tvo þykka doðranta sem báðir voru á ensku, annar svonefndur „Operation Manual“ og hinn „Station Manual“. – Lestu þér til um starfsemi Loftleiða, þá kafla þar sem ég hef merkt sérstaklega. Að því loknu röbbum við saman um það starfssvið sem félagið hyggst fela þér. – Umsjón og eftirlit með farþegaþjónustu Loftleiða í lofti og á viðkomustöðum félagsins erlendis og samningum við veitingasala á hinum ýmsu flugvöllum sem Loftleiðir flugu til á þeim tíma. Og þeim fjölgaði ört á þessum árum.

Martin gegndi viðamiklu og ábyrgðarfullu starfi sem markaðs- og sölustjóri Loftleiða. Hann var lykilmaður í hvers konar samningagerðum fyrir félagið hér sem erlendis. Var einnig fulltrúi Íslands, ásamt þáv. flugmálastjóra, Agnari Koefoed-Hansen í viðræðum við SAS og IATA og á flestum öðrum fundum í hinum ýmsu löndum, nær og fjær.

Martin var sérfræðingur Loftleiða í fargjaldamálum, og gegndi viðamiklu hlutverki í viðræðum við IATA um fluggjöld milli Reykjavíkur og Evrópulandanna þegar Loftleiðir svöruðu IATA-lækkuninni með enn meiri lækkun á sínum fargjöldum árið 1964.

Martin var falið viðamikið verkefni í öllum viðræðum Loftleiða við ríkisstjórn Íslands á uppgangsárum félagsins, svo og um lendingarleyfi Íslands í Bandaríkjunum. Almennt var álitið að lækkun fargjalda Loftleiða ógnaði hinu víðfeðma neti sem IATA réði yfir á fargjaldasviðinu. En hagur Lofteiða óx og dafnaði eftir því sem árin liðu og var það án efa sterkum og heilsteyptum mönnum innan Loftleiða eins og Martin að þakka.

Á engan er hallað þótt fullyrt sé hér að það hafi verið Martin Petersen og Sigurður Magnússon, blaðafulltrúi Loftleiða, sem áttu heiðurinn af því að koma á hinu vinsæla „Stop over“-kerfi sem Loftleiðir voru frumkvöðlar að og á líklega enn sinn þátt í hinum mikla farþegastraumi til Ísland, farþega sem nota tækifærið á leið sinni yfir Atlantshafið um Ísland og bæta því við sem áningarstað í nokkra daga. Ekki má gleyma farskrárkerfi Loftleiða sem var mikilvægur hlekkur í þessari starfsemi allri og var þá í mótun undir stjórn Íslaugar Aðalsteinsdóttur.

Ég minnist Martins Petersen sem trausts og góðs stjórnanda. Ekki síst minnist ég Martins sem hugljúfrar persónu og sannkallaðs sómamanns í þeirra orða fyllstu merkingu.

Við Brynhildur sendum Kristínu og fjölskyldu hennar okkar innilegustu samúðarkveðju.

Geir R. Andersen.