Flottur Björn og félagar.
Flottur Björn og félagar.
Í Ríkissjónvarpinu eru um þessar mundir sýndir fjarska fínir norskir sakamálaþættir sem heita Hunter. Þetta eru vandaðir þættir, gott handrit og fjölbreyttar breyskar persónur.

Í Ríkissjónvarpinu eru um þessar mundir sýndir fjarska fínir norskir sakamálaþættir sem heita Hunter. Þetta eru vandaðir þættir, gott handrit og fjölbreyttar breyskar persónur. Eins og gengur þarf fólkið í lögreglunni að takast á við hin flóknustu sakamál en auk þess fáum við innsýn í persónulegt líf þess. Fólksgalleríið er skemmtilega fjölbreytt en ég á þó tvær uppáhaldspersónur. Önnur þeirra er hann Björn, sem er aðalgæinn og ekkert leiðinlegt að horfa á hann og fylgjast með honum, svona líka fjallmyndarlegur sem hann er og sjarmerandi. Hann á það líka til að fækka fötum sem er góður bónus. Hann er mátulega óþekkur og á það til að fara eigin leiðir, við litlar undirtektir yfirmanna og eiginkonu, en oftast verður það þó til góðs. Hin uppáhaldspersóna mín er hún Gisella, ung lögreglukona, harður nagli og mikill töffari sem býr í brothættum stelpulíkama. Hún vílar ekkert fyrir sér og er líka svolítið óþekk eins og Björn, tilbúin að gera allt sem þarf til að leysa málin í vinnunni. Við Íslendingar eigum frekar auðvelt með að samsama okkur persónum í norrænum þáttum, þær eru svolítið íslenskar. Og svo er bara svo gaman að hlusta á norskuna yndislegu.

Kristín Heiða Kristinsdóttir