Vorveður Allt stefnir í ágætisvorveður um helgina og því góðar aðstæður fyrir götulistir á Laugaveginum.
Vorveður Allt stefnir í ágætisvorveður um helgina og því góðar aðstæður fyrir götulistir á Laugaveginum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hitamet gætu verið í hættu um helgina en spáð er hlýindum og björtu veðri um mestallt landið.

Hitamet gætu verið í hættu um helgina en spáð er hlýindum og björtu veðri um mestallt landið. Að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings er ekki loku fyrir það skotið að hitinn á vestan- og suðvestanverðu landinu geti slagað upp í staðbundin met á laugardag en það sé einna helst á mánudag sem landshitametið í marsmánuði gæti verið í hættu á Norðurlandi. Núverandi met í mars er 18,3 gráður á Sandi í Aðaldal árið 1948.

Einar segir að hlýjast verði á Vestur- og Suðvesturlandi í dag og á morgun, um 10-12 stig, með vindgjólu. Áberandi hlýjast verði hins vegar á mánudag fyrir norðan en þá verði vindur enn suðlægari. Atlagan að hitametinu velti hins vegar á því að sól nái að skína og hlýja loftið nái niður úr þeirri hæð sem það er í.

„Þetta verða talsverð viðbrigði eftir talsverða ótíð margar undanfarnar vikur. Svona veður á þessum árstíma er hins vegar ekki varanlegt. Það stendur yfir í nokkra daga og það er um að gera að njóta þess á meðan það er,“ segir Einar. kjartan@mbl.is