Grétar Rafn Steinsson
Grétar Rafn Steinsson
Grétar Rafn Steinsson, leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Bolton, segir á vefsíðu félagsins að síðustu dagar hafi verið erfiðir fyrir leikmenn liðsins en með samstöðu og samheldni í búningsklefanum muni þeir verða einbeittir í að laða fram góðan leik...

Grétar Rafn Steinsson, leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Bolton, segir á vefsíðu félagsins að síðustu dagar hafi verið erfiðir fyrir leikmenn liðsins en með samstöðu og samheldni í búningsklefanum muni þeir verða einbeittir í að laða fram góðan leik á morgun fyrir félaga sinn, Fabrice Muamba, sem hefur síðustu daga barist fyrir lífi sínu. „Fabrice er góður vinur minn og öllum leikmönnum líkar ákaflega vel við hann innan sem utan vallar. Þetta hefur því verið erfitt og er það sérstaklega þegar eitthvað þessu líkt kemur fyrir einhvern sem stendur manni nærri,“ segir Grétar Rafn en leikmönnum liðsins hefur verið meinað að tjá sig um málið við fjölmiðla.

„Við erum allir ánægðir með þær framfarir sem Fabrice hefur tekið en við gerum okkur alveg grein fyrir því að þetta er enn alvarlegt. Okkar hugur heldur því áfram að vera hjá honum og fjölskyldu hans. Við verðum að mæta vel einbeittir í leikinn á móti Blackburn en Fabrice verður alltaf í huga okkar. Við þurfum að sinna okkar vinnu því það er það sem Fabrice vill að við gerum. Við viljum spila leikinn fyrir Fabrice. Þó svo að við vitum að hann er enn í alvarlegu ástandi þá viljum við enda vikuna á jákvæðan hátt og vonandi tekst okkur að ljúka erfiðri viku með sigri.“ gummih@mbl.is