Rétt gæti verið að fresta rannsókn á Íraksstríði og einkavæðingu banka og setja þessa nýju í algjöran forgang

Það eru mörg upphlaupsmálin og margt sem góðviljaðir þingmenn og réttsýnir þurfa að láta rannsaka. Nú síðast hafa tveir grandvarir talsmenn stjórnarflokkanna sagst vilja rannsaka lán SÍ til Kaupþings banka gegn allsherjarveði í FIH-bankanum sem þá þótti mjög traustur danskur banki. Auk þess að staðfest verðmæti hans var margföld upphæðin sem hann stóð að veði fyrir, studdist hann þá við allsherjarábyrgðaryfirlýsingu frá danska ríkinu.

Nú tæpum fjórum árum síðar er gefið til kynna að verðmæti þessarar eignar SÍ hafi rýrnað stórlega í höndum SÍ. Það sætir auðvitað furðu. Alþingismenn vilja því rannsókn. Virðist alveg einboðið að láta hana fara fram.

Sé málið jafnalvarlegt og þingmenn telja er sjálfsagt að seðlabankastjóri og aðstoðarseðlabankastjóri, sem haldið hafa utan um málið sl. þrjú ár, án þess að koma hinu trausta veði í verð, svari eiðsvarnir hinum fjölmörgu spurningum sem hljóta að vakna um eignavörsluna. Hljóta þeir að víkja úr störfum sínum þar til hinni mikilvægu rannsókn lýkur.

Morgunblaðið tekur undir kröfur þingmannanna Helga Hjörvar og Björns Vals Gíslasonar um að rannsókn verði þegar sett í gang.