Hanna Birna Kristjánsdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is „Meirihluti reykvískra fyrirtækja – alveg eins og meirihluti fyrirtækja á landinu – segir í könnunum að ríkisstjórnin og hennar stefna sé ein helsta hindrunin fyrir vexti í atvinnulífinu.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

„Meirihluti reykvískra fyrirtækja – alveg eins og meirihluti fyrirtækja á landinu – segir í könnunum að ríkisstjórnin og hennar stefna sé ein helsta hindrunin fyrir vexti í atvinnulífinu. Þetta er auðvitað eitt mikilvægasta og brýnasta málið í Reykjavíkurborg eins og alls staðar annars staðar, að atvinnulífið vaxi og dafni til þess að íbúar geti notið hér góðra lífskjara,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, aðspurð um þá tillögu flokksins að borgarstjórn skori á ríkisstjórnina að endurskoða atvinnustefnu sína.

„Þegar skattastefna ríkisvaldsins er farin að skaða eins mikið og raun ber vitni teljum við það skyldu borgaryfirvalda að bregðast við og mótmæla. Við höfum lagt áherslu á það á vettvangi borgarstjórnar að skattar séu hóflegir og lægri en þeir eru núna, bæði gagnvart almenningi og atvinnulífinu, til þess að almenningur hafi fé til ráðstöfunar og til þess að atvinnulífið geti stuðlað að hagvexti og hagsæld.

Nú er svo komið að þegar reykvísk fyrirtæki eru spurð hvað helst þurfi að gerast í atvinnumálum í borginni er helst beðið um stuðning borgarstjórnar til að vinna gegn áherslum og aðgerðum ríkisvaldsins. Þannig að okkur finnst vandamálið orðið afar brýnt og svo alvarlegt að borgarstjórn verði að bregðast við og verja atvinnulífið og almenning.“

Óttast að málið verði svæft

Hanna Birna heldur áfram og segir meirihlutann hafa tekið fálega í þessa tillögu sjálfstæðismanna, þ.e. að borgarstjórn skori á ríkisvaldið að endurskoða áherslur sínar í samráði við atvinnulífið í því skyni að örva hagvöxt. „Það var ekki stemning fyrir því á vettvangi borgarstjórnar. Málið var sett í þann farveg að ég er sannfærð um að það hljóti ekki aðra meðferð en þá að vera svæft einhvers staðar í kerfinu,“ segir hún.

S. Björn Blöndal, aðstoðarmaður Jóns Gnarrs borgarstjóra, segir tillöguna munu verða tekna fyrir.

„Tillagan kom inn á fund borgarstjórnar á þriðjudaginn var. Henni var vísað til borgarráðs. Það er ekki búið að taka afstöðu til málsins. Ég á von á því að tillagan verði tekin fyrir þegar borgarráð kemur saman á fimmtudaginn kemur,“ segir hann.

Hvorki náðist í borgarstjóra né Dag B. Eggertsson, formann borgarráðs.