Andri Karl andri@mbl.is Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær tvo karlmenn til fjögurra ára og átján mánaða fangelsisrefsingar fyrir þátttöku í skotárás í Bryggjuhverfinu í Reykjavík 18. nóvember í fyrra. Þriðji maðurinn sem var með í för var sýknaður.

Andri Karl

andri@mbl.is

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær tvo karlmenn til fjögurra ára og átján mánaða fangelsisrefsingar fyrir þátttöku í skotárás í Bryggjuhverfinu í Reykjavík 18. nóvember í fyrra. Þriðji maðurinn sem var með í för var sýknaður. Mönnunum sem voru dæmdir er einnig gert að greiða öðru fórnarlambi sínu 600 þúsund krónur í miskabætur. Hitt dró bótakröfu sína til baka.

Mennirnir Kristján Halldór Jensson og Tómas Pálsson Eyþórsson voru ákærðir fyrir tilraun til manndráps með því að hafa farið saman á bifreið á bifreiðastæði að Tangarbryggju þar sem þeir höfðu mælt sér mót við mann vegna ágreinings um fjárskuld. Kristján Halldór skaut úr haglabyssu einu skoti í áttina að bíl mannsins – félagi hans var farþegi – en hæfði ekki. Þegar svo maðurinn ók á brott veittu mennirnir honum eftirför og skaut Kristján Halldór öðru skoti út um glugga bifreiðarinnar.

Talin ófyrirleitin háttsemi

Dómurinn taldi ósannað að fjarlægðin sem Kristján skaut úr hefði verið sú sama og í ákæru greindi, og að færið hefði getað verið lengra. Jafnframt þótti ósannað að högl hefðu borist inn í bifreiðina. „Samkvæmt framansögðu telst ekki nægilega sýnt fram á að [Kristján] hafi beitt skotvopninu með þeim hætti að mennirnir sem í bifreiðinni voru hefði getað beðið bana af, eða að ásetningur hafi staðið til þess.“ Var hann – og Tómas – því sýknaður af tilraun til manndráps.

Engu að síður taldi dómurinn að háttsemin, þ.e. að skjóta tvívegis á bifreiðina, hefði verið ófyrirleitin. „Hlaut hann að sjá það fyrir, að með því stofnaði hann lífi og heilsu mannanna tveggja sem í bifreiðinni voru í augljósan háska.“

Kristján var sakfelldur fyrir svonefnt hættubrot, þ.e. að stofna lífi eða heilsu annarra í augljósan háska og dæmdur í fjögurra ára fangelsi. Tómas var hins vegar dæmdur í átján mánaða fangelsi fyrir hlutdeild í brotinu, en hann átti frumkvæðið að fundinum, ók bílnum og veitti því fórnarlömbunum eftirför.