Malcolm Naden.
Malcolm Naden.
Ástralskur útlagi, sem í sjö ár hafði snúið á lögregluna, náðist loks í gær þar sem hann hafði komið sér fyrir í afskekktum kofa. Malcolm Naden hafði verið á flótta frá því hann hvarf af heimili afa síns og ömmu árið 2005.

Ástralskur útlagi, sem í sjö ár hafði snúið á lögregluna, náðist loks í gær þar sem hann hafði komið sér fyrir í afskekktum kofa.

Malcolm Naden hafði verið á flótta frá því hann hvarf af heimili afa síns og ömmu árið 2005. Nokkrum dögum síðar fannst Kristy Schole, 24 ára tveggja barna móðir, látin í svefnherbergi hans. Hún hafði verið kyrkt. Einnig var lýst eftir honum fyrir að hafa nauðgað 15 ára stúlku og vegna hvarfs 24 ára gamallar frænku hans.

Bitinn af lögregluhundum

Naden var handtekinn skömmu eftir miðnætti á einkajörð á strjálbýlu svæði í Nýju Suður-Wales eftir að lögregla hafði fengið ábendingu. Engum skotum var hleypt af þegar hann var handtekinn. Naden var með bit eftir lögregluhunda á fótum eftir handtökuna.

Naden vann við að flá og úrbeina í sláturhúsi. Hann er sagður meistari í að láta fyrirberast í óbyggðum Ástralíu. Áður en hann hvarf dvaldi hann bak við luktar dyr og las biblíuna, alfræðiorðabækur og leiðarvísa um að lifa af í óbyggðum.

Sagt er að hann hafi haft góða þekkingu á landinu. Hann hafi búið sér skjól uppi á hæðum og hólum til að hafa sem besta yfirsýn, lifað á náttúrunni og þess á milli brotist inn í afskekkt heimili til að stela vopnum og vistum.

Naden var dreginn fyrir dómara í gær og ákærður fyrir morð, nauðgun og tilraun til að myrða lögregluþjón.