Hvers vegna ætti ég svo sem að vera að púkka upp á einhvern sem segir mér að ég sé ekki nógu góð í hvert skipti sem við hittumst.

Við höfum átt í stormasömu sambandi í fjölda ára. Við hittumst fyrst af einhverri alvöru á unglingsárunum. Stundum hittumst við bara einu sinni í viku, jafnvel bara einu sinni í mánuði en stundum er eins og strengur á milli okkar sé órjúfanlegur og við verðum að hittast mörgum sinnum á dag. Samband okkar hefur aldrei verið gott, aldrei. Það hefur kannski komið einn og einn dagur þar sem ég hef verið sátt en dagar gremju og óánægu eru svo sannarlega miklu, miklu fleiri. Það er svo loksins núna að ég hef náð nægjanlegum þroska til að skilja að það er kominn tími á aðskilnað. Þetta gengur ekki lengur. Ég setti mér því óvenjulegt áramótaheit, við myndum ekkert hittast á þessu ári. Og ótrúlegt en satt, mér hefur tekist að standa við það. Hver veit nema það muni teygjast úr þessu áramótaheiti og samskiptum okkur sé lokið fyrir fullt og allt, um aldur og ævi. Það er sjálfsagt ólíklegt en það er núverandi draumur minn. Hvers vegna ætti ég svo sem að vera að púkka upp á einhvern sem segir mér að ég sé ekki nógu góð í hvert skipti sem við hittumst. Hingað og ekki lengra. Við erum skilin að skiptum, ég og baðvigtin mín. Það eru ófáir morgnarnir sem við höfum hist og hún hefur ákvarðað hamingju mína þann daginn. Hún hefur ósjaldan sett svip sinn á mataræðið mitt. Í veislum hef ég sneitt hjá dýrindis kræsingum þar sem við vigtin áttum í erjum áður en í veisluna var farið. Svo kem ég heim úr veislunum og reiðist út í vigtina fyrir að hafa tekið frá mér þessar ljúffengu kökur og borða eins og eitt eða tvö súkkulaðistykki, bara til að sýna henni að það er ég sem ræð. Ég tel mig vera að ná áttum á því hvað það er sem ég þarf að gera til að lifa heilbrigðu lífi, til að huga mínum og líkama líði vel þau ár sem ég á eftir. Jú, vissulega þarf ég að hreyfa mig, helst í um hálftíma á dag, ég þarf að borða holla og fjölbreytta fæðu, ég þarf að takast á við krefjandi verkefni til að þjálfa þetta gráleita og slímuga efni í höfðinu, ég þarf að verja tíma með mínum nánustu, ég þarf að vera meðvituð um líðan mína og leita læknis ef ég tel eitthvað athugavert við hana, ég má ekki neita mér um lystisemdir lífsins (eins og til dæmis súkkulaði) og kannski fyrst og síðast þarf ég að vera sátt við sjálfa mig. Ég segi því; Vertu sæl vigt, megirðu hverfa úr lífi mínu að eilífu.

Signý Gunnarsdóttir signy@mbl.Is