Varið Íris Hafberg markvörður SA ver skot frá Birninum í leiknum í Egilshöllinni í gærkvöldi. SA er komið í 2:0 í úrslitarimmunni.
Varið Íris Hafberg markvörður SA ver skot frá Birninum í leiknum í Egilshöllinni í gærkvöldi. SA er komið í 2:0 í úrslitarimmunni. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Egilshöll Kristján Jónsson kris@mbl.is Skautafélag Akureyrar er einum sigri frá Íslandsmeistaratitli kvenna í íshokkíi eftir 5:1-stórsigur á Birninum í Egilshöll í gærkvöldi.

Í Egilshöll

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Skautafélag Akureyrar er einum sigri frá Íslandsmeistaratitli kvenna í íshokkíi eftir 5:1-stórsigur á Birninum í Egilshöll í gærkvöldi. SA er 2:0 yfir í úrslitarimmu liðanna og vinna þarf þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari. SA vann fyrsta leikinn á Akureyri 7:3 og næsti leikur fer fram á Akureyri og ríkjandi Íslandsmeistarar geta þá varið titilinn á heimavelli. Útlitið er því gott hjá Akureyringum en liðið á þó vafalaust eftir að fá mótspyrnu í þriðja leiknum því leikurinn í gærkvöldi var í járnum fram að síðasta leikhluta.

Björninn skoraði fyrsta mark leiksins og hélt marki sínu hreinu fram í annan leikhlutann. Þá svaraði SA fyrir sig með tveimur mörkum og staðan var 2:1 þegar annar leikhluti var að fjara út. Þá varð vendipunktur leiksins þegar Flosrún Vaka Jóhannesdóttir slapp alein inn fyrir vörn SA. Hún var ein á móti Írisi Dröfn Hafberg, markverði SA, og hafði nægan tíma til að athafna sig, en Íris varði glæsilega. Hálfri mínútu síðar skoraði SA sitt þriðja mark og kom sér þannig í lykilstöðu fyrir síðasta leikhlutann. Óhætt er því að segja að þarna hafi verið vendipunktur leiksins enda talsverður munur á því hvort staðan er 2:2 eða 3:1 eftir tvo leikhluta.

Vindurinn var að mestu úr Birninum í síðasta leikhlutanum. Leikmenn SA gengu á lagið og bættu við mörkum. Breiddin virðist vera meiri í leikmannahópi SA og það hefur mikið að segja í svona úrslitarimmu þar sem leikið er þétt landshluta á milli.

Mörk/stoðsendingar Björninn : Steinunn Sigurgeirsdóttir 1/0, Flosrún Vaka Jóhannesdóttir 0/1.

Mörk/stoðsendingar SA : Þorbjörg Eva Geirsdóttir 1/0, Diljá Sif Björgvinsdóttir 1/0, Jónína Guðbjartsdóttir 1/0, Guðrún Marin Viðarsdóttir 1/0, Guðrún Blöndal 1/0, Birna Baldursdóttir 0/2, Silja Gunnlaugsdóttir 0/1, Sólveig Smáradóttir 0/1.

• Á mbl.is/sport er að finna myndbandsviðtöl við Steinunni Sigurgeirsdóttur úr Birninum og Önnu Sonju Ágústsdóttur úr SA.