Hið eina jákvæða við lokasprett ríkisstjórnarinnar er að hann tekur enda.

Ýmis orð og miður fögur geta átt við um störf núverandi ríkisstjórnar en það sem einna helst lýsir störfunum, ekki síst að undanförnu, er orðið seinagangur. Teljast má með ólíkindum hversu mörg mál hafa tafist mikið hjá stjórnvöldum og eftir því sem nær líður lokum kjörtímabilsins verður seinagangurinn meira áberandi.

Fyrr í vikunni var Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra til að mynda spurð um stöðu rammaáætlunar og hún svaraði því að áætlunin væri „á lokasprettinum“. Sú áætlun, sem gerð hefur verið að forsendu þess að hægt sé að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir sem skapað gætu fjölda Íslendinga góð störf, hefur verið á þessum sama lokaspretti mánuðum saman.

Nú hefur teygst á lokasprettinum vegna pólitísks baktjaldamakks um hvaða framkvæmdir eigi að leyfa og í því sambandi er ætlunin að efnislegar forsendur og skynsamleg rök muni víkja fyrir einstrengingslegum sjónarmiðum fáeinna þingmanna, enda er ríkisstjórnin svo veikburða að nánast hver og einn stjórnarliði getur tekið hana í gíslingu. Og stemningin í stjórnarliðinu er orðin þannig að það þykir sjálfsagt.

Annað mál sem kom til umræðu á þingi í vikunni og hefur einnig tafist mánuðum saman er ákvörðun um Vaðlaheiðargöng. Ríkisstjórnin, nú síðast fjármálaráðherra í forföllum, skýrir tafirnar með því að málið þurfi vandaða skoðun og sé nú í athugun hjá Ríkisábyrgðasjóði. Sú sama afsökun hefur verið viðhöfð í óratíma og er fyrir löngu orðin fullkomlega ótrúverðug, ekki síst í ljósi þess að stjórnarmeirihlutinn hafnaði í fyrra ósk samgöngunefndar um að gerð yrði frekari úttekt á fjárhagslegum forsendum verkefnisins.

Ástæða seinagangsins hefur ekkert með útreikninga eða fjárhag að gera en stafar af því að ríkisstjórnin hefur ekki náð saman meirihluta um málið.

Þetta er sama ástæða og fyrir fjölda annarra tafa á þeim verkefnum sem ríkisstjórnin hefur sjálf sagt að séu í forgangi. Ríkisstjórnin er of veik til að koma málum sínum fram og í stað þess að viðurkenna getuleysi sitt og ósigur gagnvart því verkefni að leyfa atvinnustarfsemi að blómstra í landinu, kýs hún að sitja aðgerðalaus og fela sig á bak við skýringar á töfunum sem enginn tekur lengur mark á.

Almenningur hefur lítið gagn af verkefnum sem ríkisstjórnin er með á eilífum lokaspretti. Eina bótin er að ríkisstjórnin er sjálf komin á lokasprettinn og hann mun ekki vara að eilífu. Hann gæti þó dregist í 400 daga enn og ef fram heldur sem horfir munu þeir dagar því miður ekki skila mörgum nýjum störfum eða mikilli framleiðsluaukningu í þjóðarbúið.