Meiðsli Arnór Atlason hefur glímt við meiðsli að undanförnu.
Meiðsli Arnór Atlason hefur glímt við meiðsli að undanförnu. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.is Arnór Atlason, landsliðsmaður í handknattleik og fyrirliði danska meistaraliðsins AG Köbenhavn, hefur verið undir læknishendi hér á landi undanfarna daga.

Handbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Arnór Atlason, landsliðsmaður í handknattleik og fyrirliði danska meistaraliðsins AG Köbenhavn, hefur verið undir læknishendi hér á landi undanfarna daga. Hann hefur átt í afar þrálátum meiðslum í aftanverðu læri um nokkurra mánaða skeið og standa danskir læknar ráðþrota gagnvart vandanum. Íslenskir sérfærðingar eru hinsvegar bjartsýnir og telja sig hafa leyst gátuna og að Arnór geti hugsanlega leikið með AG í næstu viku.

„Menn telja að ég verði orðinn hress eftir vikutíma og vonandi gengur það eftir,“ sagði Arnór í samtali við Morgunblaðið í gær en hann heldur af landi brott í dag.

„Ég var alveg búinn að fá nóg eftir að hafa farið í hverja skoðunina á fætur annarri og margar myndatökur hjá læknum í Danmörku án þess að nokkur botn fengist í hvað það er sem hrjáir mig og af hverju ég hef ekki fengið bót meina minna. Þar af leiðandi ákvað ég að koma heim og fara yfir málin með sérfræðingum hér á landi. Þeir telja sig búna að leysa gátuna og reikna með að ég verði orðinn hress eftir viku,“ sagði Arnór ennfremur en hann hefur m.a. fengið sprautu í lærvöðvann hér á landi.

Arnór hefur átt í fyrrgreindum meiðslum síðustu mánuði og var m.a. slæmur en harkaði af sér í leikjum Íslands á Evrópumeistaramótinu í Serbíu í byrjun ársins. Hann hefur leikið af og til með AG síðustu vikur og tók m.a. þátt í fyrri leik AG og Sävehof í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á síðasta sunnudag.

„Ég verð á meðal áhorfenda á síðari leiknum á heimavelli á laugardaginn en vonast til ef allt gengur eftir að geta verið með í fyrsta leik AG í úrslitakeppninni á miðvikudaginn. Síðan horfi ég til forkeppni Ólympíuleikanna með landsliðinu um páskana,“ sagði Arnór Atlason, landsliðsmaður í handknattleik.