Sundkappar Þau voru eldhress, skólasundskrakkarnir í Sundhöllinni í gær er ljósmyndara bar að garði.
Sundkappar Þau voru eldhress, skólasundskrakkarnir í Sundhöllinni í gær er ljósmyndara bar að garði. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðrún Sóley Gestsdóttir gudrunsoley@mbl.is Sundhöll Reykjavíkur fagnar 75 ára afmæli sínu í dag. Saga laugarinnar er um margt merkileg en hún er fyrsta yfirbyggða sundlaug landsins, reist árið 1937.

Guðrún Sóley Gestsdóttir

gudrunsoley@mbl.is

Sundhöll Reykjavíkur fagnar 75 ára afmæli sínu í dag. Saga laugarinnar er um margt merkileg en hún er fyrsta yfirbyggða sundlaug landsins, reist árið 1937. Sundhöllin er hugarsmíð Guðjóns Samúelssonar, þáverandi húsameistara ríkisins. Hafliði Halldórsson stendur forstöðumannsvaktina í Sundhöllinni um þessar mundir, í fjarveru Gísla Jónssonar. Alla jafna gegnir Hafliði forstöðumannshlutverki í Vesturbæjarlaug, en hún fagnaði fimmtugsafmæli síðasta haust. Hafliði er því vanur stórafmælisstemningu í elstu laugum Reykjavíkur.

Hafliði segir sundhöllina sívinsæla meðal borgarbúa. Hún stendur einnig framarlega á ýmsum sviðum, þótt ekki sé hún stærst lauganna á höfuðborgarsvæðinu. „Til að mynda er klór ekki bætt hér sérstaklega út í vatnið, heldur höfum við vél sem skilur að natríum og klóríð – þannig er klórinn beinlínis búinn til í vatninu sjálfu. Reksturinn á lauginni er því mjög umhverfisvænn, og hún er ein af örfáum laugum á landinu sem búa að þessum búnaði,“ segir Hafliði.

Allt til alls

Byggingin hefur tekið þó nokkrum breytingum í gegnum árin, til að mynda var sú útiaðstaða sem nú stendur gestum til boða ekki hluti af upphaflegu byggingunni. Þannig var heitum pottum og gufubaði utandyra bætt við nokkrum áratugum eftir opnun laugarinnar. Í dag eru pottarnir áningarstaður flestra sundlaugargesta auk stökkbrettanna tveggja. Þeir allra hraustustu bregða sér svo í líkamsræktartækin á bakkanum. Einnig hefur verið bætt við sólbaðsaðstöðu utandyra sem er vel nýtt á sumrin. Síðast en ekki síst er boðið upp á sundleikfimi á hverjum morgni milli átta og hálfníu. Laugin gegnir ekki einungis hefðbundnu hlutverki, heldur hefur hún á síðari árum verið nýtt sem tónleika- og kvikmyndahús. Þar eru auk þess reglulega haldnir viðburðir á vegum ÍTR, þar á meðal í tengslum við starf félagsmiðstöðvanna. Einu sinni í viku er svo köfunarkennsla í lauginni.

En hvernig verður svo haldið upp á afmælið? „Við verðum með kökur og kaffi fyrir gesti og gangandi í afgreiðslunni, og svo heldur Eva Einarsdóttir, formaður íþrótta- og tómstundaráðs, ræðu kl. 12:30,“ segir Hafliði. „Þetta verður huggulegt kaffisamsæti, en laugin verður opin samkvæmt venju.“

BJARNI VALTÝSSON HEFUR VERIÐ 11 ÁR Í STARFI SUNDVARÐAR

Húnverjarnir mættir hálfsjö

Bjarni Valtýsson er sundlaugarvörður í höllinni og hefur starfað sem slíkur í 11 ár. Hann segir nokkuð jafna aðsókn yfir daginn „Hér er nokkuð mikið að gera. Fastagestirnir eru hér á morgnana, svo eru sundnámskeiðin yfir daginn á virkum dögum. Í hádeginu og eftir vinnu bætast svo einhverjir gestir við,“ segir Bjarni. Hann nefnir líka svokallaða Húnverja, sem eru mættir á slaginu hálfsjö á hverjum morgni og hanga á hurðarhúninum þar til opnað er. Bjarni segir marga hætta sér á þriggja metra brettið. „Maður sér einn og einn skella svolítið illa í lauginni, en þeir eru fljótir að jafna sig.“ Hann segir almennt ekki þurfa að skipta sér mikið af gestum, stundum þurfi aðeins að hægja á æstustu krökkunum. „Það er bara eins og krakkar eru.“

Leiðrétting 14. mars - Elsta yfirbyggða sundlaugin

Fram kom í blaði gærdagsins að Sundhöll Reykjavíkur væri elsta yfirbyggða sundlaug landsins. Þetta er ekki rétt, því Sundskáli Svarfdæla var vígður 1929 og er elsta yfirbyggða sundlaug landsins, sem er eingöngu reist til sundiðkunar. Enn eldri er hins vegar sundlaug í kjallara Laugaskóla í Reykjadal, sem var byggð árið 1925. Er beðist velvirðingar á þessum mistökum.