Leifur Eiríksson fæddist í Reykjavík 27. febrúar 1941. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 15. mars 2012.

Leifur var yngsta barn foreldra sinna, Kristrúnar Þorleifsdóttur húsmóður frá Ísafirði og Eiríks Stefánssonar myndskera frá Reykjavík. Hann ólst upp í Grjótagötu 4, æskuheimili föður síns, ásamt foreldrum og systkinum. Þau eru Sigrún Hjördís (Rúný) látin, Karolína og Stefán. Þau lifa bróður sinn.

Leifur giftist 29. febrúar 1964 Guðrúnu Rósu Michelsen, þau skildu. Börn Leifs og Guðrúnar eru Atli, f. 1962, Kristrún, f. 1965, börn hennar eru Þorbjörg Sif Sæmundsdóttir og Sölvi Sæmundsson og Guðný, f. 1968, í sambúð með Matthíasi Sæmundssyni, börn þeirra eru Ísleifur Atli og Matthías Elí.

Leifur lærði og starfaði sem framreiðslumaður, vann í mörg ár á Hótel Sögu, Klúbbnum og Ártúni, vann síðar sem kokkur á farskipum, lengst af hjá Eimskipum.

Útför Leifs fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 23. mars 2012, og hefst athöfnin kl. 13.

Elskulegur faðir minn er látinn. Síðastliðin ár hefur hann átt við erfið veikindi að stríða sem ágerðust fyrir nokkrum mánuðum þegar hann greindist með erfitt krabbamein. Baráttan við krabbameinið, sem síðan náði yfirhöndinni, tók þó ekki mjög langan tíma.

Pabbi var alla tíð mesta ljúfmenni sem ég hef kynnst, var öllum góður og lét aldrei styggðaryrði falla um nokkurn mann. Sérstaklega var hann barngóður og löðuðust börn gjarnan að honum. Gaf hann sér alltaf tíma til að leika við þau og fíflast í þeim. Þá var oft mikið gaman og mikið hlegið.

Að leiðarlokum streyma fram minningar. Ótal margar fallegar en margar erfiðar líka því lífið hefur ekki alltaf verið honum auðvelt. Þegar ég hugsa til baka stendur upp úr þegar ég vann hjá honum, fyrst þegar hann starfaði sem hótelstjóri á Hótel Eddu á Ísafirði í tvö sumur og seinna við framreiðslustörf á skemmtistaðnum Ártúni sem þá var og hét. Hann var mjög fær þjónn, fagmaður fram í fingurgóma. Oft komu upp mál sem þurfti að leysa en hann gerði það alltaf á þann hátt að enginn fór frá borði með þá hugmynd að upp hefðu komið vandamál. Á einhvern óviðjafnanlegan hátt tókst honum alltaf með fasi sínu og ljúfmennsku að leysa málin. En þannig var pabbi, ekkert nema ljúfmennskan. Þegar við systkinin vorum lítil sá hann sjaldan ástæðu til að skamma okkur en samt hlýddum við honum.

Pabbi var mikill bókaáhugamaður, las allt sem hann náði í og hans helsta áhugamál var að binda inn bækur í skinn. Það áhugamál stundaði hann hjá föðursystur sinni á æskuheimili sínu í Grjótagötu 4 og var þar allt unnið í höndunum. Margar fallegar bækur eru til sem pabbi batt inn.

Eftir að mamma og pabbi skildu fór pabbi að vinna á fraktskipum sem kokkur. Þar fékk hann svalað ferðaþorstanum því á þeim tíma var oft stoppað lengi í hverri höfn og siglt þangað sem farmurinn átti að enda. Honum líkaði það líf vel, alltaf kom hann með eitthvað fallegt handa okkur úr hverri ferð. Aldrei kom hann þó með eins mikið eins og þegar hann eignaðist sitt fyrsta barnabarn, Þorbjörgu Sif. Hann hafði farið inn í Mothercare í London og ég held enn að hann hafi hálftæmt búðina því hann stútfyllti bílinn minn af barnadóti og ungbarnafatnaði þegar ég sótti hann í Sundahöfn. Hann eignaðist síðar þrjú barnabörn í viðbót sem hann hafði mikið dálæti á. Þau veittu honum styrk og gleði eftir að hann veiktist fyrir 12 árum.

Elsku pabbi, farðu vel, við trúum því að þú sért nú með þínu fólki og að þér líði vel. Minning þín mun lifa með okkur sem höfum mátt vera þér samferða í gegnum lífið.

Þegar ég var lítil baðstu oft bænirnar með mér og sækir ein þeirra að mér þessa dagana;

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Hvíldu í friði, elsku pabbi.

Þín

Kristrún.

Elsku pabbi minn.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að hafa þig hjá mér í 44 ár. Núna hef ég bara minningarnar um þig og það er gott að ylja sér við þær því þær eru svo margar góðar og skemmtilegar. Þú ert búinn að gera margt í lífinu. Starfaðir sem þjónn árum saman, vannst við bókband með henni frænku þinni niðri í Grjótó, varst í utanlandssiglingum á fraktskipum o.fl. o.fl. Alltaf hugsaðir þú til okkar í siglingunum, komst alltaf með einhverja minjagripi heim. Þú varst annálað snyrtimenni og passaðir alltaf upp á klæðnaðinn og þá sérstaklega fótabúnaðinn á meðan þú hafðir burði til. Af því eru til margar sögur! Sóldýrkandi varstu og varst fljótur að taka lit. Naust þess að fara í gönguferðir og voru þær ófáar gönguferðirnar sem þú leiddir mann úr Vesturbænum og niður í Grjótagötu til ömmu og afa. Þú varst með eindæmum stríðinn og það var nú eitt sem entist út allt þitt líf. Eftir okkur fengu barnabörnin þín að njóta þess. Því verður seint gleymt. Þitt góða skap og góða hjarta, stríðnin og sérstakur húmorinn mun lifa lengst í minningunni. Heimili þitt var alltaf opið og þegar mig vantaði húsnæði sem ung kona var ekkert sjálfsagðara en að bjóða mér íbúðina (og bílinn líka) meðan þú varst til sjós. Og ekki var leiðinlegt hjá okkur þegar þú varst í landi. Við spiluðum mikið, aðallega rommí, þú kenndir mér að hafa gaman af krossgátum, enda varst þú forfallinn krossgátufíkill sjálfur, við horfðum jafnvel á hryllingsmyndir saman, bæði jafn stressuð, en bæði með hugann við það að gera hvort öðru bilt við og hlógum svo að viðbrögðum hvort annars. Þú varst líka víðlesinn og maður kom aldrei að tómum kofunum, enda, ef þú vissir ekki eitthvað fórstu bara í bókaskápinn og flettir því upp.

Svo veiktist þú, pabbi, og síðustu árunum eyddir þú í góðu yfirlæti frábærs starfsfólks dvalarheimilisins Fells, nokkrum sinnum í viku fórstu líka lengst af í ýmsar tómstundir niður á Vitatorg, þ.s. þú naust þín í að skapa og eigum við systkinin og barnabörnin hina ýmsu hluti sem þú gerðir fyrir okkur og gafst í jólagjafir. Síðastliðið sumar greindist þú svo með krabbamein, sem leiddi til andláts þíns í síðustu viku. Veit að þú ert á góðum stað núna og að við munum hittast aftur þó að síðar verði.

Megirðu hvíla í friði, pabbi.

Þín dóttir,

Guðný.

Elsku afi okkar

Við vildum að við gætum fengið að hitta þig einu sinni enn á lífi. Við myndum bjóða þér í kjötsúpu, sem þér þótti svo góð. Þegar þú áttir afmæli ætluðum við öll að borða kjötsúpu með þér hér heima með allri fjölskyldunni en þú fórst á spítalann þá og við þurftum að koma með hana til þín þangað. Við söknum þín, afi, þú varst bestur!

Þínir,

Ísleifur Atli og Matthías Elí.

Elsku Leifur frændi. Nú hefur þú fengið hvíldina og ert laus við allar þjáningar. Hugur minn hefur leitað aftur í tímann síðustu daga og vikur og á ég svo margar góðar minningar sem tengjast þér og mun ég halda vel utan um þær eins og t.d. öll jólin í Grjótagötu, sumarbústaðarferð, krækiber og kindaspörð og smá prakkarastrik og svo auðvitað Einarsnesið. Það var alltaf svo gaman að koma til ykkar í Einarsnesið, þó að ég hafi verið mjög ung á þessum tíma man ég svo vel hversu spennandi mér þótti að fá að koma og gista, og það voru ófá skiptin sem ég sat í stiganum á Hagamelnum og beið eftir að Leifur frændi kæmi að sækja mig. Okkur Rúnari bróður fannst alltaf jafn gaman að vera í kringum þig, þú varst stríðinn og hafðir svo ótrúlegar sögur að segja og það leiddist okkur ekki og var alltaf mikið hlegið.

Elsku Leifur ég trúi því að þú sért kominn á góðan stað og ég veit að það verður tekið vel á móti þér. Elsku Atli, Kristrún, Guðný og fjölskyldur, megi góður Guð gefa ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.

Hvíldu í friði, elsku frændi.

Unnur Björg Stefánsdóttir.

Mig langaði að minnast þín á þessum degi með minningarbrotum, langt aftur í tíma æsku minnar.

Foreldrar mínir áttu Árbæ og í æskuminningunni varst þú alltaf þar, burstaklipptur í hvítum buxum og ljósum skóm, sem sagt mikið borgarbarn. Það var erfitt að finna annað eins snyrtimenni og þú varst á þessum árum, óaðfinnanlega klæddur og bað eða sturta helst tvisvar á dag. Við Guðný systir fengum að kynnast því hversu stríðinn þú varst og var alltaf af okkar hálfu reynt að „borga“ til baka með misjöfnum árangri þó. En mikið hlökkuðum við alltaf til þegar von var á ykkur hjónunum, því þú varst alltaf tilbúin fyrir okkur krakkana og umgekkst okkur alltaf sem vini og jafningja.

Mikið var brallað, hlegið og farið í gönguferð, kannski í sjoppuna undir Ingólfsfjalli og keypt nammi fyrir okkur krakkana og þig. Þú lætur svo sannarlega eftir þig vandaða einstaklinga sem börnin þín eru og veit ég að þú varst ávallt stoltur af þeim og umhugað um. Ég kveð þig, Leifur minn, og vona svo sannarlega að tekið verði vel á móti þér á þeim stað sem þú lendir á.

Birgir F. Lúðvígsson.