23. mars 1937 Sundhöllin í Reykjavík var vígð að viðstöddu fjölmenni. Hún hafði verið átta ár í byggingu. Morgunblaðið sagði að þetta væri „dýrasta og veglegasta íþróttastofnun landsins“. 23.

23. mars 1937

Sundhöllin í Reykjavík var vígð að viðstöddu fjölmenni. Hún hafði verið átta ár í byggingu. Morgunblaðið sagði að þetta væri „dýrasta og veglegasta íþróttastofnun landsins“.

23. mars 1938

Fyrsta kvikmyndin með Tyrone Power í aðalhlutverki var sýnd í Nýja bíói í Reykjavík. Þetta var „Lloyds í London“. Morgunblaðið sagði myndina vera framúrskarandi listaverk og heimsfræga. Leikarinn kom til landsins í nóvember 1947 og vakti heimsókn hans mikla athygli.

23. mars 1947

Á fimmta hundrað manns lenti í hrakningum frá Kolviðarhóli til Reykjavíkur í kjölfar skíðamóts. Sumir bílanna voru hálfan sólarhring á leiðinni í ófærð.

23. mars 1970

Eggert G. Þorsteinsson ráðherra greiddi atkvæði á Alþingi gegn stjórnarfrumvarpi um verðgæslu og samkeppnishömlur. Frumvarpið féll á jöfnum atkvæðum. „Einstæður atburður,“ sagði Þjóðviljinn.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson.