<strong>Glæsilegur hópur</strong> Allir kátir að lokinni frumsýningu og unga kynslóðin í meirihluta leikarahópsins.
Glæsilegur hópur Allir kátir að lokinni frumsýningu og unga kynslóðin í meirihluta leikarahópsins. — Ljósmyndir/Dagskráin Fréttablað Suðurlands.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sumir segja að hún gæti alveg verið að leika sjálfa sig, svo lík sé hún stelpunni rauðhærðu og uppátækjasömu sem býr með apa og doppóttum hesti og er dóttir sjóræningja. Esther Helga Klemenzardóttir hefur slegið í gegn í hlutverki Línu Langsokks hjá Leikfélagi Hveragerðis.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Mig hefur alltaf langað til að verða leikari og ég stefni að því að fá að leika aðalhlutverk á stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu og í Þjóðleikhúsinu,“ segir Esther Helga Klemenzardóttir ellefu ára sem veit greinilega hvað hún vill, rétt eins og hún Lína Langsokkur sem hún leikur í samnefndu leikriti sem Leikfélag Hveragerðis sýnir um þessar mundir. Esther hefur vakið mikla athygli fyrir góða frammistöðu í hlutverkinu, enda kann hún vel við sig uppi á sviði.

„Ég hef leikið í helgileik í skólanum mínum og ég hef farið á leik- og söngnámskeið þar sem ég hef verið að leika í leikritum, en þetta er fyrsta alvöruleikritið mitt,“ segir Esther og bætir við að henni finnist ekkert mál að læra og muna textann. „Þegar maður fer með sama textann aftur og aftur í nokkrar vikur er maður ekkert lengi að læra þetta. Við krakkarnir sem leikum Línu, Tomma og Önnu vorum ekki nema tvær vikur að ná textanum okkar.“

Fór í áheyrnarprufu

En hvernig kom það til að hún fékk hlutverkið? „Mamma sagði mér frá áheyrnarprufunum fyrir leikritið og þar sem mér hefur alltaf þótt gaman í leiklist, þá ákvað ég að prófa. Ég skellti mér í prufu og gerði mitt besta. Reyndar var verið að leita að eldri stelpu en mér í hlutverk Línu og ég vonaðist því bara eftir því að fá aukahlutverk. En svo þótti ég passa svo vel í aðalhlutverið að ég fékk það og ég varð alveg rosalega glöð. Það er ótrúlega gaman að taka þátt í svona stórri alvöruleiksýningu, en það getur reyndar líka verið svolítið erfitt að þurfa kannski að gera það sama aftur og aftur, þá verður maður þreyttur.“

Stress-spenna á frumsýningu

Esther segir að frumsýningardagurinn hafi verið stór dagur og mikil upplifun. „Þá var ég bæði spennt og stressuð á sama tíma, þá myndaðist svona stress-spenna, ég get eiginlega ekki lýst þessari tilfinningu, hún var mjög sérstök. En það var samt ótrúlega gaman.“ Esther segir hlutverkið ekki krefjast þess að hún sé ofursterk eins og Lína. „Ég þarf ekki að lyfta hesti, því hesturinn okkar er búinn til úr frauðplasti. En við Lína erum víst dálítið líkar, þó að ég sé ekki rauðhærð eins og hún. Margir segja að ég gæti alveg verið að leika sjálfa mig. Til dæmis þegar ég segi í leikritinu að það sé hættulegt að þegja of lengi, það á mjög vel við okkur báðar, eins og margt annað,“ segir Esther og hlær.

Hún segist hafa þekkt stelpuna Línu Langsokk vel áður en hún tók að sér hlutverkið. „Ég sá leikrit um Línu þegar ég var lítil og svo á ég disk með lögunum sem ég hlusta mikið á. Ég hef líka horft mikið á sænsku gömlu bíómyndirnar um Línu, sem eru rosalega skemmtilegar,“ segir Esther og hvetur alla til að mæta á sýninguna, hún sé svakalega skemmtileg.

LEIKFÉLAG HVERAGERÐIS

Uppeldisstöð fyrir unga leikara

„Við erum orðin þekkt fyrir að vera með góðar og metnaðarfullar leiksýningar hér í Hveragerði og margar þeirra eru barnasýningar. Við höfum sett Dýrin í Hálsaskógi upp tvisvar á tíu ára fresti, Kardimommubæinn, Emil í Kattholti og mörg fleiri. Við höfum fengið gríðarlega margt fólk á þessar sýningar og erum stóránægð með það,“ segir Hjörtur Benediktsson sem situr í stjórn Leikfélags Hveragerðis og leikur Langsokk skipstjóra pabba Línu og einnig Adolf sterka í sýningunni sem nú er á fjölunum hjá þeim.

„Það er búið að vera virkilega gaman að vinna að þessari sýningu, þó að flensan hafi reyndar aðeins verið að stríða okkur. Og það reynir svolítið á að hafa svona mörg börn í sýningu, það þarf að kenna þeim og aga þau, en þetta hefur allt saman heppnast ljómandi vel. Hún Esther sem leikur Línu Langsokk er mikið efni í leikara, hún er Lína endurfædd. Hún syngur glimrandi vel og kann alla textana út í gegn.“

Hjörtur segir almennan leiklistaráhuga vera meðal íbúa Hveragerðis, enda hefur leikfélagið starfað í sextíu og fimm ár. „Sumt af því unga fólki sem hefur verið að leika með okkur hefur haldið áfram á leiklistarbrautinni og núna eru þrír frá okkur í leiklistarnámi í útlöndum. Þetta er því ágæt uppeldisstöð fyrir efnilega leikara, en við þessir gömlu húkum hér í okkar góða félagi og höldum merki þess hátt á lofti.“

Lína Langsokkur

Eftir Astrid Lindgren í þýðingu Þórarins Eldjárn. Tónlist eftir Georg Riedel.

Leikstjóri Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson.

Sýningar:

Föstudag, 23. mars, kl. 18.00.

Laugardag, 24. mars kl. 14.00.

Sunnudag, 25. mars, kl. 14.00.

Miðvikudag, 28. mars, kl. 18.00. Föstudag, 30. mars, kl. 18.00.

Laugardag, 31. mars kl. 14.00.

Miðaverð 2.000 kr. en 1.700 kr. fyrir hópa (15 eða fleiri)

Miðapantanir í síma 868 7918.