Í aðgerð Hér hreinsar læknir á Landspítalanum brjóst sem geymdi sprunginn PIP-brjóstapúða. Soga þurfti graut út úr konunni sem var blanda af greftri og sílikoni. Sjá má leifarnar af púðanum í skálinni og enn inni í brjóstinu.
Í aðgerð Hér hreinsar læknir á Landspítalanum brjóst sem geymdi sprunginn PIP-brjóstapúða. Soga þurfti graut út úr konunni sem var blanda af greftri og sílikoni. Sjá má leifarnar af púðanum í skálinni og enn inni í brjóstinu. — Ljósmyndir/Landspítalinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is „Þetta er ekki versta tilfellið sem ég hef séð en þetta er mjög slæmt tilfelli.

Baksvið

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

„Þetta er ekki versta tilfellið sem ég hef séð en þetta er mjög slæmt tilfelli. Þetta hefur komið svona út hjá nokkrum konum sem hafa látið fjarlægja úr sér PIP-brjóstapúðana, hvort sem er á Landspítalanum eða á einkastofum,“ segir Saga Ýrr Jónsdóttir, lögmaður hjá Vox lögmönnum, og vísar í ljósmyndirnar sem birtast með þessari frétt. Þær eru af PIP-brjóstapúðum sem voru nýverið fjarlægðir úr einum umbjóðenda Sögu í aðgerð á Landspítalanum.

Konan sem um ræðir fékk PIP-brjóstapúðana ígrædda fyrir um tíu árum hjá Jens Kjartanssyni lýtalækni. Hún var farin að kenna sér meins og eins og sést á myndunum má búast við að púðarnir hafi sprungið fyrir löngu. Þeir voru báðir greindir sprungnir í ómskoðun sem konan fór í hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins fyrir aðgerðina. „Heilsa hennar var orðin í takt við púðana, í mauki, og það var gríðarlegur léttir fyrir hana að losna við þá. Það er ekki bara það að púðarnar séu ógeðslegir heldur er þetta ósamþykkt iðnaðarsílikon sem lekur þarna um líkama hennar,“ segir Saga.

Samkvæmt tölum frá Landlæknisembættinu frá 8. mars höfðu þá 11 konur farið í aðgerð á Landspítalnum til að láta fjarlægja PIP-púða. Á göngudeildina höfðu komið um 80 konur vegna málsins. Í þessum mánuði eru áætlaðar 32 aðgerðir á Landspítalanum til að fjarlægja PIP-púða.

Stefna líklega íslenska ríkinu

Saga er lögmaður hóps kvenna hér á landi sem ætla að höfða mál vegna PIP-sílikonpúða sem þær hafa fengið grædda í brjóst sín í því skyni að stækka þau. Saga segir að það sé að koma í ljós núna, þegar byrjað sé að fjarlægja púðana úr konunum, að málið sé ljótara en flestir bjuggust við. „Það eru í kringum 100 konur sem hafa leitað til mín vegna málsóknar. Ég vil helst að þær séu búnar í aðgerðinni áður en þær taka endanlega afstöðu til þess að fara með málið alla leið. Nú eru að minnsta kosti 25 konur sem hafa staðfest að þær vilji fara með málið alla leið ef svo fer að Jens synji bótaskyldu og dreifingaraðilar og aðrir.“

Svo virðist sem hluta af málunum verði stefnt gegn íslenska ríkinu fyrir að bregðast eftirlitshlutverki sínu. „Um mitt árið 2006 var birt skýrsla þess efnis að þessir púðar væru lélegri en aðrir púðar og þá finnst manni að eftirlitsskyldir aðilar á Íslandi hefðu aðeins átt að vakna upp,“ segir Saga. Hún segir málsóknina vera í fullum gangi, upplýsingarnar tínist inn auk sjúkragagnanna frá Jens. Mestar áhyggjurnar hafi hún þó núna af þeim konum sem eru með PIP-púða og hafa ekkert gert í málunum. „Ég hef áhyggjur af þeim konum sem hafa ekki efni á því að láta fjarlægja púðana á einkastofum og fá sér nýja og leggja ekki á sig að láta fjarlægja þá á Landspítalanum og labba þaðan út með engin brjóst. Því sitja þær heima með púða sem gætu verið farnir eins og þeir sem eru á myndunum. Það verður að sjá til þess að allar þessar konur leiti læknis.“

POLY IMPLANT PROTHESE

Ósamþykkt

PIP-brjóstapúðamálið komst í hámæli í ársbyrjun um heim allan. Þá kom í ljós að franski framleiðandinn, Poly Implant Prothese, hafði notað iðnaðarsilíkon í brjóstapúða sína. PIP-púðarnir voru teknir af markaði í Evrópu árið 2010 vegna þess hve sílikonefnið var lélegt.

Skel púðanna þykir líka lélegri en skel annarra púða og því rofna þeir frekar.

Allar konur sem hafa fengið PIP-púða ígrædda hér á landi, frá því byrjað var að framleiða þá árið 1992, eiga rétt á ómskoðun hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins og að láta fjarlægja púðana hjá Landspítalanum. Er það konunum að kostnaðarlausu ef þær eru sjúkratryggðar hér á landi.