Frá Páli Pálmari Daníelssyni: "Ætti fólk að tortryggja Kínverja eitthvað sérstaklega? Allir þeir Kínverjar sem ég hef umgengist á lífsleiðinni, hérlendis sem erlendis, hafa verið alveg yndislegt fólk – svo af ber. En er eitthvað að marka það?"

Ætti fólk að tortryggja Kínverja eitthvað sérstaklega? Allir þeir Kínverjar sem ég hef umgengist á lífsleiðinni, hérlendis sem erlendis, hafa verið alveg yndislegt fólk – svo af ber. En er eitthvað að marka það? Maður hefur nú heyrt hitt og þetta, lesið margt og séð ýmislegt í sjónvarpi. Svo virðast anzi margir Íslendingar næstum fjandsamlegir í þeirra garð.

Merkismaðurinn Nubo hinn kínverski var nýlega tilbúinn að festa kaup á gríðarjörðinni Grímsstöðum á Fjöllum, fyrst hún var falboðin og mun hafa verið í rúman áratug að sögn, án þess að nokkurt tilboð bærist frá íslenskum/evrópskum aðilum. Nubo, maður sem hefur ekki bara komist á báða póla jarðarinnar, heldur líka sjö hæstu fjallstindana – auk alls skáldskaparins sem hann hefur látið frá sér fara, virðist sérlegur snillingur og áhugi hans á landinu í raun heiður fyrir okkur Íslendinga. Hann sér ugglaust óteljandi möguleika, verandi kínverskur brautryðjandi á heimsmælikvarða og hafandi fjármagn til staðar.

Fyrirætlanir þær sem Nubo kynnti sýnast ríma prýðilega við umhverfisstefnu stjórnvalda þetta kjörtímabilið en fráleitt finnst mér að fetta fingur út í búsetu hans utan EES-svæðisins, þótt farið væri að lögum. Rétt er auðvitað og skylt að fara að þeim, þótt nýta hefði mátt undanþáguna í þessu stórmáli. Vísast vill Nubo sjálfur fara að lögum, en spyrja má hvort eitthvað sé bogið við téð lög?

Getur verið að illa sofnir alþingismenn í tímaþröng, hafi rétt fyrir einhver þingslitin, fest í gildi lög sem fara þarf sem fyrst að taka til endurskoðunar, ekki síst suma „bandormana“?

Núverandi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur (en hún var eitt sinn að vísu flugfreyja – og ég bið fólk að gleyma sem fyrst, vegna allra stórkostlegu flugfreyjanna almennt) er einna síst til þess fallin að leiða þetta stórmál til lykta, þótt örlað hafi á sínu hverju af viti úr ranni Samfylkingarinnar. (Enginn er alvitlaus). Verra er að Vinstri grænir virðast vera einangrunarsinnar. Ég get einungis ráðlagt þeim, auk annarra tortrygginna manna, að takast á hendur ferðalag til Bandaríkjanna – helst til tíu ríkja eða svo.

Vesturströndin er að mínu mati álitlegust, einkum Oregon- og Washington-ríki, þótt fróðari menn reki ferlið allt til Vancouver í Kanada sem kvað vera toppurinn í Norður-Ameríku. Ég allavega elska Kanadabúa sem koma núorðið í stórum stíl til landsins. Þeir þurfa engan kinnroða að bera í samanburðinum við Bandaríkjamenn, sýnist mér leigubílstjóranum í alþjóðlegu höfuðborginni Reykjavík. Veri allt þetta fólk velkomið og vel skyldi að því búið. Rétt eins og Kínverjunum vinum okkar.

PÁLL PÁLMAR DANÍELSSON

leigubílstjóri.

Frá Páli Pálmari Daníelssyni