Valdarán Valdaræningjar í Malí lýsa yfir útgöngubanni í Bamako.
Valdarán Valdaræningjar í Malí lýsa yfir útgöngubanni í Bamako. — AFP
Bamako. AFP. | Uppreisnarhermenn héldu því fram í gær að þeir hefðu tekið völdin af „vanhæfri ríkisstjórn“ Malí og tilkynntu í sjónvarpi að stjórnarskrá Afríkuríkisins hefði verið afnumin og stofnanir þess leystar upp.

Bamako. AFP. | Uppreisnarhermenn héldu því fram í gær að þeir hefðu tekið völdin af „vanhæfri ríkisstjórn“ Malí og tilkynntu í sjónvarpi að stjórnarskrá Afríkuríkisins hefði verið afnumin og stofnanir þess leystar upp. Kváðust þeir hafa látið til skarar skríða vegna vanhæfi stjórnvalda til að taka á uppreisn þjóðflokks turaega í norðri og spyrna við hryðjuverkum.

Fram kom að leiðtogi valdaræningjanna heitir Amadou Sanogo, yfirmaður úr hernum. Kveðst herforingjastjórnin ætla að koma lýðræðislega kjörnum forseta til valda þegar öryggi landsins hefur verið tryggt.

Hermennirnir lögðu undir sig forsetahöllina í Bamako, höfuðborg Malí, og tóku nokkra ráðherra höndum. Ekki var hins vegar vitað hvar Amadou Toumani Toure forseti væri niðurkominn.

Kosningar áttu að fara fram í Malí í lok apríl og sóttist Toure, sem hefur setið tvö kjörtímabil, ekki eftir endurkjöri. Sjálfur leiddi Toure valdarán árið 1991. Hann var kjörinn forseti 2002 og endurkjörinn 2007. Talað hefur verið um að lýðræði hafi dafnað í Malí undir hans forustu.

Frá því að Malí fékk sjálfstæði frá Frökkum hafa touaregar oft gert uppreisn. Upp á síðkastið hafa stjórnvöld landsins einnig þurft að kljást við samtök al-Qaeda í Norður-Afríku, AQIM.

Margir touaregar höfðu flúið þurrka og óánægju til að vinna fyrir Moammar Gaddafi í Líbíu. Þaðan sneru þeir gráir fyrir járnum og hertir í bardögum eftir að Gaddafi féll og um miðjan janúar hófu þeir nýja uppreisn. 200 þúsund manns hafa flosnað upp vegna átakanna og stjórn Malí verið harðlega gagnrýnd.

Evrópusambandið skoraði í gær á uppreisnarhermennina að taka stjórnarskrána upp á ný sem fyrst og Frakkar hvöttu þá til að láta kjósa hið fyrsta í landinu.