Það kemur fyrir að hjá manni vakna ýmsar spurningar um daginn og veginn. Við sumum þeirra virðist, að minnsta kosti í fljótu bragði, ekki vera neitt svar. Og það er meira en nóg framboð af ósvöruðum spurningum.

Það kemur fyrir að hjá manni vakna ýmsar spurningar um daginn og veginn. Við sumum þeirra virðist, að minnsta kosti í fljótu bragði, ekki vera neitt svar. Og það er meira en nóg framboð af ósvöruðum spurningum. Ein þeirra er til dæmis hvernig standi á því að banki afskrifar tugi, jafnvel hundruð milljóna króna hjá fyrirtækjum út um allan bæ. Ekki einu sinni, heldur oft.

Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að sami banki getur gengið býsna hart fram í að innheimta nokkurra þúsunda króna skuld hjá launafólki sem gerir allt sem það getur til að standa í skilum. Sumir missa jafnvel húsnæði sitt. Hvers vegna fær veitingastaðakeðja sem selur pítsur 1.500 milljónir afskrifaðar, sé fréttaflutningur ar því réttur? Má pítsukeðjan ekki bara fara á hausinn?

Einhver gæti nú hugsað með sér að fullkomnlega eðlilegt væri ef svo færi. Fyrirtæki sem safnar slíkum skuldum getur varla hafa verið vel rekið og engum til hagsbóta að halda slíkum rekstri áfram.

Tuga og hundraða milljóna skuldir illa rekinna fyrirtækja eru afskrifaðar, án þess að nokkrar ástæður liggi þar fyrir aðrar en þær að leyfa fólki sem virðist vera vonlaust í fyrirtækjarekstri að halda áfram í ruglinu.

Sem betur fer erum við flest þeirri náttúru gædd að vilja gjarnan greiða skuldir okkar. En það væri samt forvitnilegt að vita hvaða skilyrði þarf eiginlega að uppfylla til að fá eitthvað afskrifað.

Í fljóti bragði virðist að greið leið til þess sé að færast of mikið í fang eða hefja fyrirfram vonlausan rekstur. Heimskuleg ákvarðanataka, kæruleysi og hreinræktuð græðgi virðist líka vera vænleg til árangurs. Svo er líka hægt að skipta um kennitölu og skilja allar skuldirnar eftir á þeirri gömlu, en það hefur reynst mörgum vel, eins og dæmin sanna. Það má ekki gleymast að einhvers staðar frá koma allir þessir peningar sem bankarnir afskrifa. Eru bankarnir annars ekki að hluta til í eigu ríkisins?

Ég er hreint ekkert hress með að almannafé sé varið í að halda pítsustöðum og líkamsræktarstöðvum á floti. Mig langar miklu fremur til að sjá meiri peninga fara til skólanna, leikskólanna og sjúkrahúsanna, þar sem skorið hefur verið niður þannig að við öll líðum fyrir. Hvað er annars hægt að gera fyrir 1.500 milljónir? Mjög margt.

Frá hruni hefur fjöldinn allur birst af fréttum um himinháar afskriftir í bankakerfinu hjá fólki sem virðist eiga verulegar eignir og tekur ennþá þátt í íslensku viðskipta- og athafnalífi af fullum krafti, þrátt fyrir þessar afskriftir. Þetta hafa verið svo margar fréttir, svo mörg fyrirtæki, svo margir milljarðar að enginn venjulegur maður eða kona getur haft nokkra yfirsýn yfir þetta.

Einu sinni var því lofað að skjaldborg skyldi slegin um heimilin í landinu. En ætli okkur hafi ekki misheyrst þá eins og svo oft áður. annalilja@mbl.is

Anna Lilja Þórisdóttir